Erlent

Gerðu á­rás á rúss­neska efna­verk­smiðju í Bryansk

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Flaugunum er skotið af orrustuþotum og þær fljúga svo langar vegalengdir undir ratsjám óvinarins áður en þær hitta skotmörk sín.
Flaugunum er skotið af orrustuþotum og þær fljúga svo langar vegalengdir undir ratsjám óvinarins áður en þær hitta skotmörk sín. MBDA/Thierry Wurtz

Úkraínski herinn gerði í gærkvöldi árás á efnaverksmiðju í rússnesku borginni Bryansk.

Herinn segist hafa notað breskar langdrægar Storm Shadow flaugar til verksins og munu flaugarnar hafa komist framhjá rússneskum loftvörnum þannig að árásin er sögð hafa heppnast fullkomlega.

Enn er verið að meta afleiðingar árásarinnar en Rússar hafa löngum varað vesturlönd við því að láta Úkraínumenn hafa langdræg vopn sem hægt er að nota til árása á sjálft Rússland.

Yfirvöld í Úkraínu segja hinsvegar nauðsynlegt að hafa þann möguleika að geta gert Rússum skráveifu innan þeirra eigin landamæra. Þeir segja að verksmiðjan í Bryansk hafi verið Rússum afar mikilvæg í þeirra hergagnaframleiðslu, þar hafi verið framleitt byssupúður, sprengiefni og fleira í þeim dúr.

Donald Trump Bandaríkjaforseti tjáði sig svo í nótt um hversvegna fyrirhuguðum fundi hans og Pútíns Rússlandsforseta hafi verið frestað um óákveðinn tíma og sagðist ekki vilja sitja á tilgangslausum fundum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×