Atvinnulíf

Á­föll í vinnu: Erfitt að sinna vinnu og jafn­vel heimilis­haldi

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Kristjana Þórarinsdóttir sálfræðingur og áfallasérfræðingur hjá Kvíðameðferðarstöðinni segir mikilvægt að vinnustaðir hugi að áfallameðferð fyrir starfsfólk sem upplifir í sínu starfi eitthvað langt út fyrir það sem eðlilegt getur talist að upplifa.
Kristjana Þórarinsdóttir sálfræðingur og áfallasérfræðingur hjá Kvíðameðferðarstöðinni segir mikilvægt að vinnustaðir hugi að áfallameðferð fyrir starfsfólk sem upplifir í sínu starfi eitthvað langt út fyrir það sem eðlilegt getur talist að upplifa. Vísir/Anton Brink

Undanfarið hefur Atvinnulífið fjallað um áföll í vinnu. Til dæmis krabbamein á vinnustöðum eða óvæntar uppsagnir.

Í dag beinum við sjónum að áfallahjálp fyrir viðbragðsaðila; fólk sem starfar til dæmis í lögreglunni, slökkviliði eða sjúkraflutningafólks.

Því áföll sem þessi hópur getur orðið fyrir í vinnu sinni, geta haft mun meiri áhrif en aðeins á líðan viðkomandi eða á meðan viðkomandi starfar í tiltekinni vinnu.

Og það sem verra er, ef þessi hópur fær ekki aðstoð við áfallaeinkennin sín, getur vítahringurinn orðið grafalvarlegur.

„Áfallaeinkennin geta þá varað árum saman og haft veruleg áhrif á getu fólks til þess að sinna hlutum í daglegu lífi. Til dæmis sinna sinni vinnu eða jafnvel heimilishaldi,“ segir Kristjana Þórarinsdóttir sálfræðingur hjá Kvíðameðferðastöðinni þar sem hún stýrir áfallateyminu.

„Fólk sem er með áfallaeinkenni er mun líklegra til þess að þróa með sér þunglyndi, sjálfsvígshætta getur aukist og fólki er hættara við að þróa með sér fíknisjúkdóm.“

En við ræðum líka áfallahjálp í kjölfar uppsagna og hvaða vinnustaðir þurfa markvisst að huga að áfallameðferðum.

Einkenni áfalla

Það hljómar kannski skringilega að lífið snúist um áföll hjá Kristjönu. Sem þó segir það staðreyndina. Ekki aðeins vegna þess að hún leiði áfallateymið hjá Kvíðameðferðastöðinni (KMS) heldur vegna þess að næsta vor lýkur hún doktorsprófi frá Háskóla Íslands, þar sem hún tekur fyrir svið áfalla.

Um áföll í starfi viðbragðsaðila segir Kristjana:

„Það er þekkt að fólk sem endurtekið upplifir að koma að mjög erfiðum aðstæðum eins og til dæmis sjálfsvígum, alvarlegum slysum eða þar sem alvarlegt ofbeldi hefur átt sér stað getur þróað með sér áfallaeinkenni, þó svo að það sem það hefur orðið vitni að sé ekki hluti af þeirra persónulegu upplifun.“

Sem þýðir að þótt atburðurinn sem slíkur snerti ekki neinn sem er nákominn viðkomandi sjálfum, er áfallið ekkert síður mikið.

„Það er að segja, er ekki að koma fyrir einhvern sem er nákominn því sjálfu.“

Sigurður Árni Reynisson, fyrrverandi lögreglumaður, lýsti þessu einmitt vel í grein sem hann birti á Vísi um síðastliðna helgi og Vísir fjallaði einmitt um.

Þar sagði meðal annars:

„Við settum bláu ljósin á og ókum eins hratt og við máttum. 

Þegar við komum á vettvang, örfáum augnablikum á undan sjúkraflutningamönnunum, hlupum við inn í íbúðina. 

Þar blasti við okkur drengur á grunnskólaaldri sem hafði tekið eigið líf og systir hans hélt undir fætur hans og reyndi að bjarga honum.“

Og svo stóð:

„Síðan komu ættingjar og faðirinn fyrstur. 

Ég sá hvernig hann brotnaði þegar hann áttaði sig á því hvað hafði gerst. Það hljóð sem kom frá honum var ekki grátur, heldur djúpt og hrátt hljóð sem fór í gegnum mann eins og raflost. 

En það sem ég gleymi aldrei er þegar hann hringdi í eiginkonu sína til að segja henni frá. Ég heyrði örvæntinguna í rödd hans og svo öskrið úr símanum þegar móðirin skildi hvað hann var að reyna að segja. Það hljóð hefur fylgt mér allar götur síðan.“

Kristjana segir að þótt áfallaeinkenni geti verið margs konar, lýsi þau sér einmitt oft í óvelkomnum minningum úr áfallinu.

„Þetta eru þá minningar sem koma upp í hugann þegar eitthvað minnir á það sem viðkomandi upplifði eða varð vitni að, þessar minningar eru oftast sjónrænar, eitthvað sem maður sér í huganum, annað hvort eins og mynd eða stutt vídjó,“ segir Kristjana og bætir við:

Við getum líka verið að heyra hljóð, finna bragð, lykt eða finna fyrir snertingu en oftast er sterkasta skynjunin það sem við sjáum fyrir okkur í huganum þegar að minningin kemur upp.“

Kristjana nefnir fleiri einkenni.

„Fólki getur líka verið að dreyma illa eða með martraðir, þessir draumar eru oft ekki um áfallið sjálft en geta tengst því með einhverjum hætti og oft er fólk að vakna í uppnámi við þessa drauma og á jafnvel erfitt með að róa sig niður og upplifir þess vegna að ná ekki að sofa nægilega vel.“

Og alls kyns tilfinningalegt uppnám.

„Til dæmis að verða sorgmætt, finna fyrir leiða eða depurð en einnig getur maður verið að finna fyrir reiði, bara hverju sem er í rauninni sem er óþægilegt að upplifa eða að upplifa streitu, kvíða eða ótta þegar eitthvað minnir á lífsreynsluna.“

Kristjana segir afleiðingarnar af því að fólk fái ekki áfallameðferð fljótlega eftir áfall í vinnu geta verið margvíslegar. Tilfinningarússibani, martraðir eða óþægilegir draumar, óvelkomnar minningar, að geta ekki sinnt vinnunni eða heimilishaldinu sem skyldi.Vísir/Anton Brink

Áföll og vinnuveitendur

Nú þegar uppsagnir hafa verið víða, eru margir að upplifa ákveðið áfall á vinnustöðum. Uppsagnirnar eru oft mikið áfall fyrir þá sem missa starfið sitt, en eru ekkert síður erfiðar fyrir fólkið sem situr eftir á vinnustaðnum.

„Óvæntur atvinnumissir er vissulega gríðarlega erfiður sérstaklega ef fólk hefur lengi verið á vinnustað eða er komið á miðjan aldur vegna þess að það hefur aðra merkingu fyrir þeim en þeim sem missa vinnuna ungir,“ segir Kristjana og bendir þannig á hvernig við getum upplifað uppsagnir á mismunandi hátt, eftir því á hvaða aldri við erum.

Það sem þó getur mildað höggið er að lenda í áfalli með öðrum.

„Hópuppsagnir eru auðvitað mjög erfiðar en öll áföll þar sem hópur verður saman fyrir áfallinu er ekki líklegur til þess að valda áfallaeinkennum en það er talið verndandi þáttur fyrir þeim að fleiri takist á við sömu lífsreynslu saman.“

Þótt hópuppsagnir séu erfiðar mildar það áfall að fólk lendi í einhverju saman sem hópi. Kristjana segir óvæntar uppsagnir geta komið mis erfiðlega við fólk, til dæmis eftir því á hvaða aldri það er.Vísir/Anton Brink

Aðspurð um þá vinnustaði sem Kristjana telur þurfa að sinna áfallahjálp mjög markvisst, er Kristjana mjög skýr:

Mér finnst að allir vinnustaðir þar sem fólk þarf að takast á við aðstæður sem eru langt út fyrir það sem telst eðlilegt að upplifa ættu að huga að leiðum til þess að minnka líkurnar á að starfsfólk þrói með sér áfallaeinkenni og að veita fólki aðgengi að aðstoð sem hefur þegar gert það.“

Tíminn gegni þar lykilhlutverki.

„Það er mikilvægt fyrsta mánuðinn eftir að fólk hefur orðið vitni að einhverju hræðilegu, að það hafi ríkuleg tækifæri til þess að tala um það sem gerðist, um sína upplifun, tilfinningar og hugsanir sem tengjast því. Tala um í raun allt sem það gæti verið að upplifa í tengslum við það sem það hefur orðið vitni að.“

Að flýja áföll er margreynt og sannað að gengur ekki.

„Það er afar mikilvægt að fólk sé hvatt til þess vera ekki að reyna að forðast að hugsa um það sem það upplifði eða að forðast að upplifa tilfinningarnar sem tengjast því, heldur hafi rými til að tjá hugsanir sínar og tilfinningar. Þetta getur skilað sér í því að fólk þrói síður með sér áfallaeinkenni.“

Það góða er þó að ef rétt er staðið að málum, skilar áfallameðferð miklum árangri.

„Markviss áfallameðferð skilar oftast góðum árangri og oft upplifir fólk mikinn mun mjög snemma í meðferðinni þannig ég myndi mæla með því fyrir þá sem eru að upplifa áfallaeinkenni að leita sér hiklaust hjálpar ef það hefur tök á.“


Tengdar fréttir

„Starfsfólkið sem eftir er vegnar oft verr andlega heldur en fólkinu sem hættir“

„Rannsóknir sýna að starfsfólkið sem eftir er vegnar oft verr andlega heldur en fólkinu sem hætti störfum í kjölfar uppsagnar,“ segir Hilja Guðmundsdóttir ráðgjafi hjá Mental ráðgjöf og sérfræðingur í mannauðsstjórnun. Og er þar að vísa í það sem getur gerst á vinnustað, eftir hópuppsagnir.

Sorg á vinnustöðum: Auðvelt að gera mistök

„Það skiptir öllu máli að vinnustaðurinn láti mann finna að sorgin og söknuðurinn sem maður er að fara í gegnum sé viðurkenndur, svigrúm veitt til að syrgja en á sama tíma séu skilaboðin skýr um að maður skipti máli sem starfsmaður og að þeir vilji mann aftur. Þetta er algjört lykilatriði í skilaboðum vinnuveitenda til þess sem missir náinn ástvin," segir Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir stjórnarformaður Sorgarmiðstöðvarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×