Innlent

Lands­net fagnar sigri í bar­áttu við land­eig­endur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rafmagnslínur á Reykjanesi.
Rafmagnslínur á Reykjanesi. Vísir/Vilhelm

Landsréttur hafnaði í dag kröfu nokkurra landeigenda um að ógilda ákvörðun umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra frá 21. júní 2024 um heimild Landsnets til eignarnáms vegna lagningar Suðurnesjalínu 2 í Sveitarfélaginu Vogum.

Þar með staðfestir Landsréttur niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu um að fullnægjandi lagaheimild hafi verið til staðar og fylgt hafi verið lögbundinni málsmeðferð við undirbúning og framkvæmd eignarnáms.

„Þessi niðurstaða er mikilvægt skref í að ljúka framkvæmdinni. Til stóð að taka Suðurnesjalínu 2 í rekstur í haust en það hefur tafist vegna dómsmála,” segir Ragna Árnadóttir forstjóri Landsnets í tilkynningu.

Mál varðandi framkvæmdaleyfi Voga er til meðferðar í Hæstarétti, án viðkomu í Landsrétti. Landsnet og Sveitarfélagið Vogar voru sýknuð af kröfu um ógildingu framkvæmdaleyfisins í Héraðsdómi Reykjaness.

Framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2 eru sagðar langt komnar en einungis á eftir að framkvæma á þeim jörðum sem tengjast eignarnáminu. Áætlaður verktími þar er um fjórar mánuðir að því er segir í tilkynningu.

Dóminn má lesa hér


Tengdar fréttir

Línan um­deilda fær enn eitt græna ljósið

Héraðsdómur Reykjaness hefur sýknað Landsnet og Sveitarfélagið Voga af öllum kröfum landeigenda í Vogum, sem kröfðust þess að framkvæmdarleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 yrði ógilt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×