Veður

Allur floti Vega­gerðar úti að ryðja snjó

Lovísa Arnardóttir og Sunna Sæmundsdóttir skrifa
Miklar tafir eru í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu eftir snjókomu næturinnar.
Miklar tafir eru í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu eftir snjókomu næturinnar. Vísir/Tómas

G. Pétur Matthíasson, upplýsingfulltrúi Vegagerðarinnar, segir að vel hafi gengið í morgun að ryðja götur og það hjálpi til að snjórinn sé blautur.

„Enginn skafrenningur og ekkert að hlaðast upp. En eins og venjulega er það helst hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem stöku bíll er vanbúinn, stoppar og kemst ekki áfram og það tefur að við getum hreinsað betur,“ segir G. Pétur.

Hann segir allan flota Vegagerðarinnar úti að ryðja og að hann hafi heyrt af óhöppum víða um höfuðborgarsvæðið.

„Já það er einn og einn á höfuðborgarsvæðinu sem hefur lent í vandræðum en það er ekki mjög mikið.“

Bætir í snjókomu í dag og viðvaranir. Viðbúnaður hjá ykkur?

„Já við fylgjumst vel með og erum í startholunum með öll okkar tæki til að halda öllu opnu. Þannig það verður örugglega erfiðara veður seinnipartinn í dag en mér sýnist Veðurstofan vera að spá því að þetta komi örlítið fyrr en við áttum von á. Þannig við erum bara tilbúin.“

Hann segir best fyrir fólk að fara ekki út á illa búnum bílum.

„Það er lang mikilvægast. Betra að reyna að koma sér með öðrum leiðum til vinnu. En aðalatriðið er að ef þú ert á sumardekkjum kemstu bara ekki neitt.“

Hægt er að fylgjast með nýjustu vendingum af veðrinu í vaktinni á Vísi. 


Tengdar fréttir

Veðurvaktin: Snjókoman rétt að byrja og víða erfið færð

Snjó kyngir niður á höfuðborgarsvæðinu í fyrsta sinn í vetur. Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun þar til síðdegis í dag en þá taka við appelsínugular viðvaranir við Faxaflóa, á Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu. Snjóað hefur frá því í gærkvöldi á suðvesturhorninu og er nokkurra sentímetra snjólag yfir öllu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×