Fótbolti

Landsliðskonur að­stoðuðu öku­menn í vanda

Valur Páll Eiríksson skrifar
Okkar konur létu ekki sitt eftir liggja og aðstoðuðu ökumenn í vanda.
Okkar konur létu ekki sitt eftir liggja og aðstoðuðu ökumenn í vanda. Samsett/Vísir/KSÍ

Landsliðskonur í fótbolta létu frestun fyrirhugaðs leiks við Norður-Írland í dag ekki á sig fá. Óljóst er hvenær leikurinn getur farið fram en þær aðstoðuðu þess í stað fólk í vanda á bílastæðum landsins.

Landsliðið gistir á Hilton-hóteli við Suðurlandsbraut og má sjá þær hjálpa til við að ýta bílum í nágrenni hótelsins á samfélagsmiðlum KSÍ. Myndskeið á miðlum sambandsins ber yfirskriftina „Öðruvísi leikdagur“ og er þar engu logið.

Enn er fundað um nýjan leiktíma og möguleika í stöðunni milli KSÍ, UEFA og norður-írska knattspyrnusambandsins. Beðið er yfirlýsingar frá KSÍ um næstu skref en það eina sem er vitað sem stendur er að enginn leikur fari fram í dag.

Haldið er í vonina um að geta leikið á morgun en séu veðurspár réttar, að það snjói enn frekar í kvöld og nótt, verður að teljast ólíklegt að aðstæður bjóði upp á leikdag á morgun.

Stelpurnar okkar gátu í það minnsta látið gott af sér leiða í borginni dag, á meðan óvissa er um framhaldið.


Tengdar fréttir

Landsleiknum aflýst og framhaldið óljóst

Landsleik Íslands og Norður-Írlands í Þjóðadeild kvenna í fótbolta hefur verið aflýst. Hann mun ekki fara fram í Kórnum eins og vonir stóðu til um. Framhaldið er til skoðunar.

Vonast til að komast í Kórinn: „Menn hafa aldrei séð annað eins“

Niðurstaða stöðufundar fulltrúa UEFA, KSÍ og knattspyrnusambands Norður-Írlands er sú að fyrirhugaður landsleikur Íslands og Norður-Íra geti ekki farið fram á Laugardalsvelli í dag. Fulltrúarnir eru á leið í Kórinn í Kópavogi í skoðunarferð og standa vonir til að leikurinn fari þar fram í kvöld.

Stöðufundur í Laugardal klukkan 10:30

Eftirlitsaðilar Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, munu funda klukkan 10:30 með dómurum leiks Íslands og Norður-Írlands, auk forráðamanna knattspyrnusambanda ríkjanna, vegna fyrirhugaðs leiks kvöldsins í Þjóðadeild kvenna í fótbolta á Laugardalsvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×