Sport

Hljóp hálft mara­þon í Crocs og drakk úr skónum

Sindri Sverrisson skrifar
Iskander Yadgarov sýndi fylgjendum sínum hvernig iljarnar litu út eftir hlaupið og fékk sér sopa úr skónum.
Iskander Yadgarov sýndi fylgjendum sínum hvernig iljarnar litu út eftir hlaupið og fékk sér sopa úr skónum. Skjáskot/@i.yadgarov

Rússneski hlauparinn Iskander Yadgarov fór óvenjulega leið í vali á skóbúnaði þegar hann keppti í hálfmaraþoni í Valencia á dögunum. Hann hljóp nefnilega í Crocs-skóm en náði engu að síður að klára hlaupið á innan við sjötíu mínútum.

Samkvæmt Mundo Deportivo hafði Yadgarov áður prófað að keppa í Crocs-skóm í tíu kílómetra hlaupi, í Barcelona í maí.

„Ég vildi bara sjá hvort að það að vera léttur á sér og með frjálsan huga myndi hafa meira að segja en tæknin,“ sagði Yadgarov eftir að hafa hlaupið tíu kílómetrana á aðeins 31 mínútu og 18 sekúndum, og þannig slegið mörgum við sem kepptu í sérhönnuðum hlaupaskóm.

Hann bætti svo um betur með því að klára hálft maraþon í Valencia á aðeins 1:09:03 en viðurkenndi að það hefði ekki verið neitt sérstaklega þægilegt.

„Aldrei aftur!!!“ skrifaði Yadgarov í færslu á Instagram þar sem hann sýndi frá hlaupinu sínu og hvernig iljarnar litu út eftir hlaupið.

Yadgarov virðist þó hafa verið fljótur að jafna sig og gæddi sér á ísköldu öli eftir hlaupið, og notaði annan skóinn og verðlaunapening sinn til þess að fá sér sopa.

Samkvæmt ferilskrá Yadgarov á heimasíðu alþjóða frjálsíþróttasambandsins hefur hann hraðast hlaupið hálft maraþon á 1:08:02 í Riva del Garda árið 2014. Hann hljóp heilt maraþon í Valencia fyrir tveimur árum á 2:14:07 og 10 kílómetra á 29:14 í Moskvu árið 2016. Það eru hins vegar afrek hans í Crocs-skónum sem vakið hafa mesta athygli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×