Enski boltinn

Fé­lagið í greiðslu­stöðvun en borgaði öll laun degi fyrr

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn Sheffield Wednesday hafa komið mjög sterkir inn á síðustu dögum í miklum fjárhagsvandræðum félagsins.
Stuðningsmenn Sheffield Wednesday hafa komið mjög sterkir inn á síðustu dögum í miklum fjárhagsvandræðum félagsins. Getty/Cameron Smith

Enska fótboltafélagið Sheffield Wednesday er í greiðslustöðvun en skiptastjórar Wednesday hafa tilkynnt að leikmenn og starfsfólk hafi fengið full laun greidd degi fyrr. Frábært framtak og kaupgleði stuðningsmanna félagsins reddaði málunum.

Þetta er mikil breyting fyrir alla hjá félaginu en starfsmenn og leikmenn hafa þurft að þola langvarandi mynstur mánaðarlegra greiðsluseinkana. BBC segir frá.

Félagið, sem leikur í ensku B-deildinni, var sett í greiðslustöðvun og fékk tólf stiga refsingu í síðustu viku eftir margra mánaða ólgusjó undir stjórn eigandans Dejphon Chansiri.

Á dögunum síðan þá hafa stuðningsmenn hætt sniðgöngu sinni á félaginu og Kris Wigfield, frá skiptastjórunum Begbies Traynor, sagði að stuðningsmenn hefðu þegar eytt meira en 500.000 pundum í miða og í verslun félagsins frá og með mánudeginum. Það gera meira en 82 milljónir íslenskra króna.

Launagreiðslur höfðu borist of seint í fimm af þeim sjö mánuðum áður en skiptastjórar tóku við stjórn félagsins og bundu enda á tíu ára valdatíð Chansiri sem eiganda.

„Þetta markar stórt skref fram á við í að koma á stöðugleika í rekstri félagsins og endurbyggja traust bæði innan félagsins og meðal stuðningsmanna okkar. Við hefðum ekki getað náð þessu án ótrúlegs stuðnings ykkar stuðningsmanna Wednesday,“ sagði í yfirlýsingu frá félaginu.

„Endurkoma ykkar á Hillsborough, aukning í sölu á varningi og miðum og áframhaldandi trú ykkar á félaginu hafa gert þetta mögulegt.“

Stigafrádrátturinn þýðir að félagið er á botni B-deildarinnar með mínus sex stig og er sextán stigum frá öruggu sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×