Fótbolti

Patrick Vieira ekki lengur þjálfari Mikaels Egils

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrick Vieira er ekki lengur þjálfari ítalska félagsins Genoa. Hann var látinn taka pokann sinn í gær.
Patrick Vieira er ekki lengur þjálfari ítalska félagsins Genoa. Hann var látinn taka pokann sinn í gær. Getty/Simone Arveda

Íslenski landsliðsbakvörðurinn Mikael Egill Ellertsson er að fá nýjan þjálfara því Genoa ákvað að láta Patrick Vieira fara í gær.

Vieira, sem er þekktastur fyrir að vera fyrrverandi miðjumaður Arsenal og franska landsliðsins, var ráðinn í nóvember 2024 og undir hans stjórn endaði liðið í þrettánda sæti í ítölsku A-deildinni. Gengið á þessu tímabili hefur verið afar dapurt.

Genoa er nú á botni deildarinnar og enn án sigurs í deildinni á þessari leiktíð. Uppskeran er sex töp og þrjú jafntefli í níu deildarleikjum. Einu sigrar félagsins á tímabilinu hafa komið í tveimur leikjum í ítalska bikarnum.

Genoa staðfesti brotthvarf Vieira í gær, tveimur dögum fyrir leik liðsins gegn Sassuolo í ítölsku A-deildinni.

Í yfirlýsingu á vefsíðu félagsins segir: „Genoa tilkynnir að Patrick Vieira er ekki lengur þjálfari aðalliðsins. Félagið vill þakka þjálfaranum og starfsliði hans fyrir þá alúð og fagmennsku sem þau hafa sýnt í störfum sínum og óskar þeim alls hins besta á framtíðarferli sínum.“

„Tæknileg stjórn aðalliðsins hefur verið falin Roberto Murgita til bráðabirgða, með aðstoð frá Domenico Criscito.“

Eftir að hafa stýrt Nice og New York City FC var Vieira í tvö ár knattspyrnustjóri Crystal Palace áður en hann hætti þar í mars 2023 og tók við sem aðalþjálfari Strasbourg í júlí 2023. Honum entist ekki þar nema til júlí 2024.

Mikael Egill Ellertsson var í byrjunarliði Genoa í síðustu átta deildarleikjunum undir stjórn Viera og þar af spilaði hann allar níutíu mínúturnar í síðustu sex leikjum. Hann hefur spilað mest inni á miðjunni en einnig sem bakvörður eins og hjá íslenska landsliðinu.

Mikael Egill Ellertsson í leik með Genoa á þessu tímabili.Gertty/sportinfoto/DeFodi








Fleiri fréttir

Sjá meira


×