Neytendur

Matarinnkaupum frestað fram yfir mánaða­mót

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Finnur Oddsson er forstjóri Haga, sem meðal annars Bónus og Hagkaup heyra undir.
Finnur Oddsson er forstjóri Haga, sem meðal annars Bónus og Hagkaup heyra undir. vísir/samsett

Kauphegðun landsmanna virðist hafa tekið breytingum og forstjóri Haga segir fólk fresta matarinnkaupum fram yfir mánaðamót í auknum mæli. Breytingin bendi til þess að buddur séu teknar að tæmast í lok mánaðar.

Langvarandi verðbólga og hátt vaxtastig hefur eðlilega ýmis áhrif í þjóðfélaginu og eina líklega afleiðingu má sjá í kauphegðun landsmanna. Finnur Oddsson, forstjóri Haga, sem Bónus og Hagkaup heyra meðal annars undir, segir verslun hafa gengið vel og heilt yfir haldist söm en að ákveðin breyting hafi þó orðið.

„Það hefur lengi vel þekkst að í lok mánaðar dempast sala aðeins niður og tekur svo stökk á fyrstu dögum nýs mánaðar og í sjálfu sér er allt eðlilegt við það. En fyrir svona einu og hálfu ári, kannski tveimur, að þá fórum við að veita því athygli að þessi sveifla varð smám saman aðeins meira afgerandi, það er að segja meiri dempun í lok mánaðar og þá meira stökk í byrjun þess næsta,“ segir Finnur Oddsson, forstjóri Haga.

Vaxtastigið að bíta

Fólk sé því í auknum mæli farið að fresta matarinnkaupum fram yfir mánaðamót og bíða eftir útborgun.

„Það eru eflaust ýmsir þættir sem geta spilað hér inn í og kannski erfitt að fullyrða nákvæmlega um hverjir þeir eru en manni finnst nærtækt að praktísk áhrif af háu vaxtastigi séu að skila sér í því að það grynnkar hraðar í buddunni en var. Við sáum að fastir vextir á húsnæðislánum hafa losnað í auknum mæli og hækkað þá vextir á húsnæðislánum síðustu misseri og það hefur oftast nær einhver áhrif á ráðstöfunartekjur.“

Kauphegðun landsmanna virðist hafa tekið nokkrum breytingum. Þrátt fyrir að heildarverslun haldist er fólk einnig í auknum mæli að velja ódýrari valkosti.vísir/Vilhelm

Þá sé einnig að merkja breytingar á vöruvali fólks.

„Ef við horfum aftur til lengri tíma, fjögur til fimm ár aftur í tímann, að þá hefur verðbólga í heiminum verið töluvert mikil og í rauninni allar vestrænar þjóður upplifað hækkun á matvörukörfu. Það sem við sjáum fólk gjarnan gera er að velja kannski aðeins öðruvísi. Það er verið að verja álíka upphæðum í matarinnkaupin en þú kannski velur ódýrari valkosti í staðinn fyrir dýrari valkosti og það eru bara skynsamleg viðbrögð við aukinni dýrtíð og samdrætti í ráðstöfunartekjum,“ segir Finnur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×