Erlent

Belgar kalla saman þjóðar­öryggis­ráð vegna drónaflugs við flug­velli

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Drónaflugið hafði mjög raskandi áhrif á flugumferð á alþjóðaflugvellinum í Brussel.
Drónaflugið hafði mjög raskandi áhrif á flugumferð á alþjóðaflugvellinum í Brussel. AP Photo/Virginia Mayo

Þjóðaröryggisráð Belgíu kemur saman til neyðarfundar í dag vegna drónaflugs við flugvelli í landinu sem röskuðu ferðaáætlunum farþega og hefur valdið áhyggjum af öryggismálum. Rússar eru sagðir „mjög líklega“ bera ábyrgð á sífjölgandi atvikum þar sem óvelkomnir drónar hafa verið á sveimi í evrópskri lofthelgi síðan um miðjan september.

Í nokkrar klukkustundir fóru komur og brottfarir úr skorðum á flugvellinum í Brussel, stærsta flugvelli landsins, á þriðjudagskvöld. Hátt í hundrað flugferðum var aflýst og þá var umferð um lofthelgi við flugvöllinn í Liège einnig lokað, en þar fer alla jafna í gegn nokkur flugumferð vegna fraktflutninga. Þetta olli enn frekari töfum auk þess sem umferð var beint um aðra flugvelli í staðinn.

Í umfjöllun Guardian um málið er þess jafnframt getið að borgarstjóri í flæmska bænum Diest hafi sagt her- og lögreglumenn hafi séð fjóra dróna á sveimi nærri Schaffen herflugvellinum sama kvöld.

Stjórnvöld í Belgíu höfðu þegar til rannsóknar dularfulla drónaumferð sem vart varð við við nokkrar herstöðvar um helgina, þar á meðal við Kleine-Brogel herstöðina nærri landamærum Hollands, þar sem F-16 orrustuþotur Belga eru geymdar. Þá er herstöðin talin geyma bandarísk kjarnorkuvopn.

Drónaflugið í Belgíu á þriðjudag er enn eitt dæmið um óvelkomna umferð loftfara í evrópskri lofthelgi undanfarnar vikur. Meðal annars hafa drónar sést í Tékklandi, Danmörku, Eistlandi, Þýskalandi, Póllandi, Noregi og á Spáni. Það eru ekki aðeins drónar sem hafa verið á sveimi í óleyfi, heldur einnig helíumblöðrur sem báru sígarettur, en evrópskir leiðtogar hafa sagt um fjölþáttaárásir að ræða. 

Rússar hafa ekki gengist við ábyrgð vegna drónanna en þeir eru sterklega grunaðir um að vera á bakvið umræddar fjölþáttaárásir í Evrópu. Herflugvélar Rússa hafa einnig rofið eistneska lofthelgi auk þess sem Rúmenar sendu herþotur til viðbragðs þegar drónar komu inn í lofthelgi landsins, skömmu eftir árás Rússa í nágrannalandinu Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×