Erlent

Sex drepnir í á­rásum á blokkir og orkuinnviði

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Tveir létust þegar Rússlandsher hæfði íbúðarhús í Dnipro. 
Tveir létust þegar Rússlandsher hæfði íbúðarhús í Dnipro.  EPA

Minnst sex féllu í eldflauga- og drónaárásum Rússa á orkuinnviði og íbúðarhús í Úkraínu í dag. 

Tveir létust og tólf særðust þegar Rússlandsher hæfði íbúðarhús í borginni Dnipro. Þá létust þrír í loftárás í Zaporizhzhia. Árásir voru gerðar á 25 stöðum hvaðanæva um Úkraínu, þar með talið í Kænugarði. 

Víða er rafmagns- og heitavatnslaust eftir árásirnar. Yulia Svyrydenko forsætisráðherra Úkraínu sagði í færslu á Telegram að herinn hefði unnið skemmdir á mikilvægum orkuinnviðum í Kænugarði, Karkív og Poltava. 

Breska ríkisútvarpið hefur eftir varnarmálaráðuneyti Rússlands að Rússlandsher hafi skotið niður 79 dróna frá Úkraínuher í nótt. Samkvæmt upplýsingum frá úkraínska flughernum skaut hann níu eldflaugar og 406 dróna niður á sama tíma.

Rússneskir ráðamenn segja árásir sínar á úkraínska orkuinnviði beinast að hernum en Úkraínumenn telja þær skýra aðför að fólkinu í landinu. Þá sé tilgangur þeirra að koma höggi á úkraínska hagkerfið. 

Volodimír Selenskí forseti Úkraínu segir árásirnar sýna fram á brýna þörf á áframhaldandi refsiaðgerðum vestrænna ríkja gagnvart Rússlandi. Greint var frá því í gær að Donald Trump Bandaríkjaforseti hefði gert Ungverja undanskilda refsiaðgerðum vegna kaupa á rússneskri olíu í heilt ár. Péter Szijjártó utanríkisráðherra Ungverjalands sagði undanþáguna tryggja Ungverjum orkuöryggi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×