Körfubolti

Slakur undir­búningur hjá Ár­manni: „Þær virðast koma bara al­veg af fjöllum“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Gleðin var við völd þegar Ármann tryggði sér sæti í Bónus deildinni í vor en liðið hefði mátt undirbúa sig betur að sögn Hallveigar Jónsdóttur.
Gleðin var við völd þegar Ármann tryggði sér sæti í Bónus deildinni í vor en liðið hefði mátt undirbúa sig betur að sögn Hallveigar Jónsdóttur.

Ármann hefur aðeins unnið einn af fyrstu sjö leikjum tímabilsins í Bónus deild kvenna í körfubolta og liðið undirbýr sig alls ekki nógu vel fyrir leiki, að mati sérfræðings Körfuboltakvölds.

Eini sigur liðsins hingað til er gegn Hamar/Þór, sem er eina liðið sem hefur ekki unnið leik á tímabilinu. Slæmt gengi Ármenninga var tekið fyrir í síðasta þætti Körfuboltakvölds, eftir að nýliðarnir höfðu tapað 103-81 fyrir Stjörnunni.

„Eitt spurningamerki sem ég set við þetta, er undirbúningur liðsins fyrir leiki“ sagði Hallveig Jónsdóttir.

„Þær virðast koma bara alveg af fjöllum. Það er eins og þær séu ekkert að fara yfir kerfin, ég set spurningamerki við undirbúninginn. Það þarf bara að skoða 2-3 kerfi og þú ert með þetta en mér finnst svo oft eins og þær hafi enga hugmynd um við hvaða lið þær eru að spila“ sagði Hallveig einnig og nefndi dæmi úr Stjörnuleiknum máli sínu til stuðnings.

„Pressuvörnin hjá Stjörnunni er nú mjög þekkt dæmi, en það er eins og þær [hjá Ármanni] séu bara eitthvað hissa. Ekkert skipulag, átta sekúndur trekk í trekk, tapaðir boltar og það er bara hreinlega eins og þetta hafi komið þeim á óvart“ sagði Hallgerður en umræðuna alla má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Ármann hefur nú nægan tíma, heilt landsleikjahlé, til að undirbúa sig fyrir næsta leik gegn Njarðvík sem verður þann 22. nóvember.

Klippa: Körfuboltakvöld - Hvað er í gangi hjá Ármanni?



Fleiri fréttir

Sjá meira


×