Fótbolti

Rekinn úr starfi í annað sinn á þessu ári

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ivan Juric hefur þjálfað mörk ítölsk lið, og eitt enskt, en ekki náð góðum árangri undanfarið ár. 
Ivan Juric hefur þjálfað mörk ítölsk lið, og eitt enskt, en ekki náð góðum árangri undanfarið ár.  Marco Luzzani/Getty Images

Ivan Juric hefur verið rekinn úr starfi knattspyrnustjóra Atalanta í ítölsku úrvalsdeildinni þrátt fyrir að hafa aðeins stýrt liðinu í fimmtán leikjum. Þetta er í annað sinn á árinu sem Króatinn er látinn fara eftir skamman tíma við stjórnvölinn.

Juric var einnig rekinn frá Southampton í apríl, þegar sjö leikir voru enn eftir af tímabilinu, eftir að hafa tekið við liðinu í desember 2024 en mistekist að stýra því frá falli úr ensku úrvalsdeildinni.

Króatíski metalhausinn tók svo við Atalanta í sumar en hefur nú verið látinn fara ásamt öllu sínu þjálfarateymi. Þeir skilja við liðið í 13. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar. Sassuolo negldi síðasta naglann kistuna í gær þegar liðið lagði Atalanta að velli 3-0.

Juric tók við stjórastarfinu af Gian Piero Gasperini, sem hafði stýrt Atalanta frá 2016 en yfirgaf félagið í sumar til að taka við Roma.

Gasperini umbreytti Atalanta, gerði liðið að reglulegum þátttakendum í Meistaradeildinni og vann Evrópudeildina tímabilið 2023-24. Liðið endaði í þriðja sæti á síðasta tímabili undir hans stjórn.

Óvíst er hver tekur við starfinu en Raffaele Palladino, hefur verið orðaður við stöðuna í töluverðan tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×