Enski boltinn

Kominn með einka­leyfi á kaldasta fagnið í bransanum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Cole Palmer er kominn með einkaleyfi á „Cold Palmer“
Cole Palmer er kominn með einkaleyfi á „Cold Palmer“ Joe Prior/Visionhaus via Getty Images

Cole Palmer er greinilega umvafinn öflugu teymi lögfræðinga því hann er kominn með einkaleyfi á nánast allt sem tengist nafni hans eða ímynd. Þar með talið fagninu fræga, þar sem hann hjúfrar sér um axlir til að hlífa sér frá kulda.

Palmer fékk fyrst einkaleyfi á „Cold Palmer“ gælunafið og ákvað svo að sækja um fleiri einkaleyfi, til dæmis fyrir nafn sitt „Cole Palmer“ og skammstöfunina „CP“ og ímyndarrétt tengdan andliti hans, en hann þykir frekar sérkennilegur í fasi.

Hann sótti einnig um einkaleyfi fyrir fagnið sem hann hefur gert frægt og sendi inn stutt myndskeið til að sýna hvernig fagnið er framkvæmt. Myndskeiðið hefur ekki verið gert opinbert en aðdáendur ensku úrvalsdeildarinnar hafa séð fagnið þónokkuð oft undanfarin ár.

Cole Palmer er yfirleitt kalt þegar hann skorar. Chris Brunskill/Fantasista/Getty Images

Palmer fékk einkaleyfi fyrir flestöllu sem hann sótti um, þar með talið fagninu, en fékk ekki einkaleyfi til þess að framleiða vín undir Palmer nafninu því það brýtur gegn höfundarrétti frönsku vínekrunnar Chateau Palmer, sem tengist leikmanninum ekki neitt.

Hann má þó framleiða aðra áfenga drykki, gos, orkudrykki eða hvað annað undir nafninu „Cold Palmer.“

Einkaleyfið á fagninu þýðir þó ekki að hann einn megi framkvæma það. Aðrir leikmenn mega alveg láta eins og þeim sé kalt þegar þeir skora, en þeir mega ekki taka myndir af sér í svona fagnaðarlátum og selja á fatnaði eða í auglýsingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×