Körfubolti

Stólarnir gáfust ekki upp og gengu frá Manchester

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Dedrick Basile var hetja Tindastóls. 
Dedrick Basile var hetja Tindastóls.  Vísir/Pawel

Tindastóll tók á móti Manchester Basketball í Síkinu í kvöld og lagði enska liðið að velli, 100-96.

Leikurinn var æsispennandi frá upphafi til enda og aldrei munaði miklu milli liðanna á stigatöflunni.

Stólarnir voru þó skrefi á undan og voru með sjö stiga forystu í upphafi fjórða leikhluta, en glutruðu henni niður og lentu undir þegar tæpar tvær mínútur voru eftir, staðan þá 90-91 fyrir Manchester.

Dedrick Basile lét hins vegar ekki segjast og svo gott sem gekk frá gestunum á næstu mínútunni. Basile skoraði þá sex stig í röð og kom Tindastóli 96-93 yfir þegar ellefu sekúndur voru eftir. Taiwo Badmus skoraði svo tvö snögg stig eftir að gestirnir töpuðu boltanum frá sér.

Manchester náði að setja þrist til að minnka muninn í 98-96 en brutu svo á Júlíusi Orra Ágústssyni, sem kláraði leikinn á vítalínunni. Lokatölur 100-96.

Kraftframherjinn Ivan Gavrilovic var stiga- og frákastahæstur hjá Tindastóli með 28 stig og 11 fráköst. Dedrick Basile fylgdi honum eftir í stigaskorun með 23 stig og var stoðsendingahæstur með 9 gjafir til liðsfélaga.

Tindastóll hefur nú unnið þrjá af fjórum leikjum hingað til í Norður-Evrópudeildinni, eina tapið kom í síðustu á útivelli gegn Opava í Tékklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×