Enski boltinn

Úlfarnir komnir með nýjan þjálfara

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Rob Edwards er tekinn við sínu fyrrum félagi. 
Rob Edwards er tekinn við sínu fyrrum félagi.  Zac Goodwin/PA Images via Getty Images

Rob Edwards hefur tekið við störfum sem knattspyrnustjóri Wolverhampton Wanderers í ensku úrvalsdeildinni. Liðið situr í neðsta sæti og hefur ekki unnið deildarleik.

Edwards gerir samning sem gildir út tímabilið 2029. Hann hefur þjálfað Middlesborough á þessu tímabili en Úlfarnir greiða félaginu fyrir að fá hann til starfa, um þrjár til fjórar milljónir punda samkvæmt Sky Sports.

Hann tekur aðstoðarmann sinn, Harry Watling, með sér frá Middlesborough og frekari breytingar á þjálfarateyminu verða tilkynntar á næstunni.

Middlesborough hafnaði fyrstu beiðni Úlfanna um að hefja viðræður við hann, en samþykkti svo að leyfa Edwards að fara fyrir rétta upphæð. Hann var ekki viðstaddur leik liðsins gegn Birmingham á laugardag, heldur er hann talinn hafa verið í Wolverhampton. 

Edwards tekur við starfinu af Vítor Pereira, sem tók við liðinu í desember í fyrra og stýrði því frá falli, fékk svo nýjan þriggja ára samning en tókst ekki að stýra liðinu til sigurs í ellefu tilraunum.

Edwards náði góðum árangri sem stjóri Luton Town frá 2022-25 og kom liðinu upp í úrvalsdeildina á sínu fyrsta tímabili við stjórnvölinn. 

Hann var leikmaður Wolves og spilaði yfir hundrað leiki fyrir félagið á árunum 2004-08. Hann stýrði liðinu líka tímabundið í sínu fyrsta aðalþjálfarastarfi árið 2016, eftir að hafa starfað fyrir akademíuna í nokkur ár á undan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×