Handbolti

Ágúst laus úr frysti­kistu í Dan­mörku

Sindri Sverrisson skrifar
Ágúst Elí Björgvinsson er farinn frá Ribe-Esbjerg.
Ágúst Elí Björgvinsson er farinn frá Ribe-Esbjerg. Ribe-Esbjerg

Ágúst Elí Björgvinsson, einn þriggja markvarða íslenska handboltalandsliðsins í síðustu leikjum, er í leit að nýju félagsliði eftir að hafa samið við danska félagið Ribe-Esbjerg um riftun samnings.

Ágúst Elí fór í ágúst að láni til dönsku meistaranna í Álaborg, vegna meiðsla Niklas Landin, og vann til að mynda danska ofurbikarinn með liðinu.

Eftir að Landin jafnaði sig af meiðslum fór Ágúst Elí aftur til Ribe-Esbjerg, í byrjun október, en fékk hins vegar engin tækifæri hjá liðinu og hefur nú ákveðið að kveðja.

Handbolti.is hafði eftir Ágústi í gær að hann væri ekki kominn með samning við nýtt félag en að hann vonaðist til þess að það myndi ganga upp fljótlega.

Á vef Ribe-Esbjerg er Ágústi þakkað fyrir samstarfið og óskað alls hins besta, innan sem utan vallar, og þar segir að um sameiginlega ákvörðun hans og félagsins hafi verið að ræða.

Ágúst Elí kom til Ribe-Esbjerg sumarið 2022 frá öðru dönsku félagi, Kolding. Áður var hann hjá sænska félaginu Sävehof eftir að hafa farið frá FH út í atvinnumennsku árið 2018.

Hann hefur lengi verið viðloðandi íslenska landsliðið og leikið með því á stórmótum. Hann var ásamt Viktori Gísla Hallgrímssyni og Björgvini Páli Gústavssyni valinn í Þýskalandsförina um síðustu mánaðamót, og spilaði þar fyrri vináttulandsleikinn við Þjóðverja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×