Fótbolti

Liðsfélagi Glódísar Perlu hættir í lands­liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Magdalena Eriksson og Glódís Perla Viggósdóttir fagna hér marki saman í leik með Bayern München.
Magdalena Eriksson og Glódís Perla Viggósdóttir fagna hér marki saman í leik með Bayern München. Getty/Julian Finney

Magdalena Eriksson, fyrrum fyrirliði sænska kvennalandsliðsins í fótbolta, hefur ákveðið að hætta að gefa kost á sér í landsliðið.

Eriksson spilar við hlið Glódísar Perlu Viggósdóttur í miðri vörn Bayern München og á að baki yfir hundrað landsleiki.

„Þetta er erfiðasta ákvörðun sem ég hef nokkurn tíma tekið,“ sagði Magdalena Eriksson í myndbandi sem hún setti inn á Instagram.

Eriksson segist hafa tekið þessa ákvörðun þar sem hún þurfi nú að setja heilsu sína í fyrsta sæti og gefa líkamanum tækifæri til að jafna sig eftir endurtekin meiðsli undanfarin ár. Hún er 32 ára gömul.

„Ég þarf að hlusta á líkama minn og heilsu og forgangsraða eftir því. Þetta er sannarlega ákvörðun sem ég vildi óska að ég hefði ekki þurft að taka, en vegna þess hvernig líkama mínum líður nú til dags er þetta ákvörðun sem mér finnst ég verða að taka,“ sagði Eriksson í yfirlýsingu á heimasíðu sænska knattspyrnusambandsins.

Eriksson lék sinn fyrsta landsleik gegn Frakklandi árið 2014 og hefur spilað 123 landsleiki – og verið lykilmaður í mörg ár. Með Svíþjóð hefur hún unnið tvö silfurverðlaun á Ólympíuleikunum (2016 og 2021) og bronsverðlaun á HM 2019 og 2023. Síðasti landsleikur hennar var gegn Englandi í átta liða úrslitum EM í sumar.

„Landsliðið hefur sannarlega þýtt svo mikið fyrir mig öll þessi ár. Það sem við höfum áorkað saman í landsliðinu er það sem ég er stoltust af á ferlinum og ég mun minnast allra áranna með mikilli gleði. Við höfum skemmt okkur svo vel saman og náð svo miklum árangri, um leið og við höfum barist fyrir mörgum mikilvægum málum, staðið með okkur sjálfum og kvennaknattspyrnunni. Ég er mjög stolt af landsliðsferli mínum,“ sagði Eriksson.

„Það eru þungar fréttir að Magdalena sé að ljúka ferli sínum með landsliðinu. Hún hefur lengi verið einn af okkar mikilvægustu leikmönnum og fagmennska hennar, hugrekki og hjarta hafa sett sterkan svip á landsliðið,“ sagði Tony Gustavsson, landsliðsþjálfari Svíþjóðar.

„Ég ber mikla virðingu fyrir þeirri umhyggju sem hún sýnir eigin líkama og framtíð og er henni innilega þakklátur fyrir allt sem hún hefur lagt af mörkum til sænska fótboltans og óska henni alls hins besta í framtíðinni,“ sagði Gustavsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×