Fótbolti

HM-hátíð á Ráð­hús­torginu í Osló í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Braut Haaland fagnar sigri Norðmanna í Mílanó í gær.
Erling Braut Haaland fagnar sigri Norðmanna í Mílanó í gær. Getty/Image Photo

Norðmenn tryggðu sig endanlega inn á heimsmeistaramótið í fótbolta með sigri á Ítölum á útivelli. Þetta verður fyrsta stórmót karlalandsliðsins síðan 2000 og fyrsta heimsmeistaramótið síðan 1998.

Í tilefni af þessum árangri ætlar norska knattspyrnusambandið ásamt Oslóarborg að bjóða til hátíðar á Ráðhústorginu í Osló í dag.

„Það verður örugglega góð stemning. Ég vona að margir komi og taki á móti okkur,“ sagði Martin Ødegaard, fyrirliði norska liðsins, sem gat ekki spilað vegna meiðsla en fylgdi landsliðinu í þessu verkefni.

„Nú býst ég við að sjá fullt af fólki á Ráðhústorginu á morgun,“ sagði Erling Haaland sem seinkar för sinni til Englands til að fagna með sínu fólki í dag.

Norðmenn unnu alla átta leiki sína í riðlinum og Haaland skoraði sextán mörk í þeim eða tvö mörk að meðaltali í leik.

„Allt karlalandsliðið og NFF vilja þakka norsku þjóðinni fyrir stuðninginn og gefa eitthvað til baka. Í samvinnu við borgina höfum við komið á fót góðri dagskrá með stuttum fyrirvara. Þetta viltu ekki missa af,“ sagði Karl-Petter Løken, framkvæmdastjóri norska knattspyrnusambandsins, við NRK.

Hátíðin hefst klukkan 17.45 að norskum tíma eða klukkan 16.45 að íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×