Enski boltinn

Sesko úr leik fram í desem­ber

Sindri Sverrisson skrifar
Benjamin Sesko meiddist í leiknum gegn Tottenham, fyrir landsleikjahléið sem nú stendur yfir.
Benjamin Sesko meiddist í leiknum gegn Tottenham, fyrir landsleikjahléið sem nú stendur yfir. Getty/Catherine Ivill

Slóvenski framherjinn Benjamin Sesko verður ekki með Manchester United í næstu leikjum vegna meiðsla. Hann slapp þó við alvarleg meiðsli.

Samkvæmt frétt Sky Sports í dag er búist við því að Sesko verði frá keppni í mesta lagi í einn mánuð, eftir að hann meiddist í hné í leiknum gegn Tottenham fyrir landsleikjahléið.

Sesko varð að fara meiddur af velli á 88. mínútu, eftir að hafa komið inn á sem varamaður hálftíma fyrr, og voru United-menn manni færri í lokin af þeim sökum en náðu þó 2-2 jafntefli.

Hinn 22 ára gamli Sesko kom til United frá RB Leipzig í sumar fyrir 73,7 milljónir punda en hefur ekki alveg náð að stimpla sig inn. Sérfræðingar Sunnudagsmessunnar sögðu að svo virtist sem hann glímdi við mikinn skort á sjálfstrausti.

Næsti leikur United er á mánudagskvöldið eftir viku, þegar liðið tekur á móti Everton.

Sesko missti hins vegar af 2-0 tapi Slóvena á heimavelli á laugardaginn og verður að sjálfsögðu ekki heldur með á morgun þegar þeir sækja Svía heim í síðasta leik sínum í undankeppni HM. Sá leikur snýst aðeins um það hvort liðanna endar í 3. sæti B-riðils þar sem Sviss og Kósovó enda ofar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×