Sport

Jón Þór hárs­breidd frá HM-gulli

Sindri Sverrisson skrifar
Jón Þór Sigurðsson heldur áfram að vinna verðlaun á stórmótum.
Jón Þór Sigurðsson heldur áfram að vinna verðlaun á stórmótum. STÍ

Evrópumeistarinn Jón Þór Sigurðsson gerði sér lítið fyrir og vann til bronsverðlauna á heimsmeistaramótinu í skotfimi í dag, í Kaíró í Egyptalandi. Minnstu munaði að hann tryggði sér heimsmeistaratitilinn í óhemju spennandi keppni.

Jón Þór vann bronsverðlaunin í 300 metra riffilskotfimi, rétt eins og gullverðlaunin sem hann vann á Evrópumótinu í byrjun ágúst. Í þeirri grein skjóta menn með stórum riffli, liggjandi af þrjú hundruð metra færi.

Hæsta mögulega skor er 600 stig en fimm keppendur urðu jafnir með 597 stig í Kaíró í dag.

Þá er horft til þess hve oft menn hittu í innsta hring spjaldsins, svokallaðar xtíur, og var sigurvegarinn Petr Nymbursky frá Tékklandi með 40 xtíur. Max Ohlenburger frá Þýskalandi fékk silfur með 38 xtíur og Jón Þór hlaut bronsið eftir að hafa náð 36 xtíum.

Eins og sjá má á skorkorti Jóns Þórs hér að neðan þá hlaut hann 98 stig í síðustu umferðinni, eftir að hafa fjórum sinnum fengið fullt hús og einu sinni 99 stig. Það munaði sáralitlu að annað tveggja skotanna sem skiluðu honum 9 stigum í lokaumferðinni hefði skilað 10 stigum, og þar með heimsmeistaratitli.

Skorkort Jóns Þórs Sigurðssonar á HM. Það skilaði honum bronsverðlaunum en eins og sjá má mátti engu muna a ðhann fengi 99 stig í lokaumferðinni, og þar með 598 stig eða flest allra.ISSF

Jón Þór endaði 3 xtíum fyrir ofan næsta mann, Pascal Bachmann frá Sviss, sem varð að gera sér 4. sæti að góðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×