Enski boltinn

Mo Salah hefur ekki verið bestur í Afríku í sjö ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Achraf Hakimi eltir Mohamed Salah í leik Liverpool og Paris Saint-Germain í Meistaradeildinni þar sem PSG sló út Liverpool á dramatískan hátt.
Achraf Hakimi eltir Mohamed Salah í leik Liverpool og Paris Saint-Germain í Meistaradeildinni þar sem PSG sló út Liverpool á dramatískan hátt. Getty/Liverpool FC

Varnarmaðurinn Achraf Hakimi hjá Paris Saint-Germain var valinn knattspyrnumaður ársins í Afríku árið 2025 en hann fékk verðlaunin afhent við athöfn í Rabat í Marokkó.

Marokkóski landsliðsmaðurinn fékk flest atkvæði en Mohamed Salah, stórstjarna Liverpool og Egyptalands, og Victor Osimhen, framherji Nígeríu og Galatasaray, komu næstir.

Salah átti magnað tímabil með Englandsmeisturum Liverpool þar sem hann var bæði markahæstur og stoðsendingahæstur í bestu deild heims, ensku úrvalsdeildinni. Hann hefur ekki verið kosinn bestur í Afríku í sjö ár eða síðan hann var valinn bestur tvö ár í röð, 2017 og 2018.

„Ég er mjög stoltur af því að vinna þessi virtu verðlaun,“ sagði Hakimi.

„Þessi bikar er ekki bara fyrir mig, heldur fyrir allar sterku konurnar og karlana sem dreymir um að verða knattspyrnumenn í Afríku. Og fyrir þá sem trúðu alltaf á mig frá því ég var barn, að ég myndi einn daginn verða atvinnumaður í fótbolta. Ég vil þakka þeim öllum,“ sagði Hakimi.

Hakimi átti vissulega stórkostlegt tímabil og vann fimm titla með PSG, þar á meðal fyrsta Meistaradeildartitil félagsins.

Bakvörður PSG lék lykilhlutverk í úrslitaleiknum þegar hann skoraði fyrsta markið í ógleymanlegum 5-0 sigri á Inter Mílanó í maí.

Gianni Infantino, forseti FIFA, og Patrice Motsepe, forseti CAF, afhentu Hakimi verðlaunin, en það er heiður sem varnarmaður hefur ekki hlotið síðan miðvörðurinn Bwanga Tshimen frá Saír (nú Lýðstjórnarlýðveldið Kongó) vann þau árið 1973.

Miðjumaðurinn Ghizlane Chebbak varð fyrsta marokkóska konan til að vinna titilinn knattspyrnukona Afríku ársins. Hún hlaut aðalverðlaunin og var þar á undan landa sínum Sanaa Mssoudy og Rasheedat Ajibade frá Nígeríu.

Bubista var valinn þjálfari ársins eftir að hafa stýrt eyríkinu Grænhöfðaeyjum til óvænts sætis á HM 2026, en þetta er í fyrsta sinn sem þjóðin tryggir sér þátttökurétt á heimsmeistaramótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×