Íslenski boltinn

Jónatan og for­maður hissa á tali um KR-löngun

Sindri Sverrisson skrifar
Jónatan Ingi Jónsson hefur leikið með Val síðustu tvö ár og er með samning við félagið sem gildir til næstu tveggja ára.
Jónatan Ingi Jónsson hefur leikið með Val síðustu tvö ár og er með samning við félagið sem gildir til næstu tveggja ára. vísir/Diego

Dr. Football, eða Hjörvar Hafliðason, varpaði sprengju í þætti sínum í vikunni þegar hann sagðist hafa heyrt af því að Jónatan Ingi Jónsson vildi fara frá Val til erkifjendanna í KR. Hvorki Jónatan né formaður knattspyrnudeildar Vals vilja þó kannast við að þetta sé rétt.

„Nei, þetta er ekki rétt. Ég hef aldrei sagt við neinn að ég vilji fara í KR,“ segir Jónatan í samtali við Vísi og kveðst hafa komið af fjöllum þegar hann sá frétt um málið í gær.

„Ég held að það sé ekkert til í þessu. Við könnumst ekkert við þetta og ég veit ekki hvaðan þetta kemur,“ segir Björn Steinar Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Vals.

Kvitturinn um áhuga Jónatans á að fara til KR kemur á sama tíma og Júlíus Mar Júlíusson, miðvörður KR, hefur verið orðaður við Val. Valsmenn og fleiri félög hafa sýnt áhuga á að fá Júlíus en eftir því sem næst verður komist þykir verðmiði KR of hár. Félagið metur hann á 15 milljónir króna eða tvöfalt meira en félagið greiddi Fjölni fyrir þennan efnilega 21 árs gamla leikmann, fyrir ári síðan.

Júlíus er með samning við KR sem gildir út árið 2028 og Jónatan Ingi er með samning við Val sem gildir út árið 2027.

Jónatan skoraði 13 mörk í 27 deildarleikjum fyrir Val í fyrra, þegar þessi uppaldi kantmaður FH sneri heim úr atvinnumennsku, en gerði sex mörk á nýafstaðinni leiktíð, þegar Valsmenn höfnuðu í 2. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×