Enski boltinn

„Mikið fjör í búnings­klefanum“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Murillo fagnar fyrsta marki Nottingham Forest en mark kom Liverpool-mönnum algjörlega úr jafnvægi.
Murillo fagnar fyrsta marki Nottingham Forest en mark kom Liverpool-mönnum algjörlega úr jafnvægi. Getty/Shaun Botterill

Nottingham Forest niðurlægði Liverpool á þeirra eigin heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í dag og fyrirliði liðsins var líka kátur með sigurinn í leikslok.

„Strákarnir voru ótrúlegir. Við áttum sigurinn svo sannarlega skilið og það er mikið fjör í búningsklefanum. Við erum að njóta þess,“ sagði Ryan Yates, fyrirliði Nottingham Forest, í samtali við Sky Sports.

Hann var spurður út í Liverpool-liðið sem byrjaði leikinn vel en fór í algjöran baklás eftir að liðið lenti undir.

„Þeir eru samt sem áður lið fullt af gæðum og við vissum það. Þegar maður kemur á Anfield þarf maður að standast áhlaupið. Við skoruðum, slógum þá út af laginu og leyfðum þeim aldrei að ná sér aftur á strik,“ sagði Yates.

Sean Dyche tók við Forest liðinu á slæmum stað en hefur heldur betur snúið við gengi liðsins. Forest hefur nú náð í sjö stig í síðustu þremur leikjum.

„Hann hefur verið gríðarlega mikilvægur, hann og starfslið hans. Þeir komu inn og tóku öllu sem viðkemur félaginu opnum örmum. Þeir sköpuðu þessa samheldni milli liðsins og stuðningsmannanna, sem er gríðarlega mikilvægt hjá Forest. Við viljum ekki fara fram úr okkur en byrjunin hefur verið frábær,“ sagði Yates.

„Við búum yfir gæðunum en við þurfum að styðja við þau og leggja harðar að okkur fyrir hvern annan í hverjum leik. Við höfum tekið góðum framförum síðustu vikur, svo höldum áfram að vera jákvæð,“ sagði Yates.

Forest-menn eru núna komnir upp í sextánda sæti deildarinnar.

„Það er mikil sálfræðileg lyftistöng að komast upp úr fallsæti en það er erfiðara að halda sér þar og það er það sem þetta félag krefst,“ sagði Yates.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×