Körfubolti

Stólarnir litu út eins og NBA-stjörnurnar í Space Jam-myndinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tindastólsmenn komust í úrslit á Íslandsmótinu í fyrra en voru heillum horfnir í Grindavík á fimmtudagskvöldið.
Tindastólsmenn komust í úrslit á Íslandsmótinu í fyrra en voru heillum horfnir í Grindavík á fimmtudagskvöldið. Vísir/Hulda Margrét

Tindastólsmenn voru í dauðafæri til að vinna toppslaginn á móti Grindavík í áttundu umferð Bónusdeildar karla í körfubolta en útkoman var allt önnur en menn bjuggust við. Grindvíkingar, án tveggja byrjunarliðsmanna, sundurspiluðu Stólana og Bónus Körfuboltakvöld henti í einn góðan samanburð eftir að hafa orðið vitni að lélegasta leik Tindastólsliðsins í langan tíma.

„Stólarnir, sem fóru í einvígið um Íslandsmeistaratitilinn í vor og alla leið í oddaleik, voru allt annað en frábærir í þessum leik. Strákar, þetta minnti á eitt því þetta minnti ekki um neitt annað heldur en ódauðlega kvikmynd,“ sagði Stefán Árni Pálsson, umsjónarmaður Bónus Körfuboltakvölds.

Stefán sýndi í framhaldinu nokkrar furðulegar sóknir Stólana í samanburði við hvernig NBA-stjörnurnar litu út í Space Jam-myndinni.

Klippa: Körfuboltakvöld bar saman Tindastólsmenn og NBA-stjörnurnar í Space Jam

„Þetta var ótrúleg frammistaða hjá Tindastólsmönnum. Egill Birgisson er búinn að liggja yfir Space Jam í allan dag, búinn að finna bestu klippurnar,“ sagði Stefán Árni og sýndi myndbrot úr þeirri frægu mynd.

Þeir bara týndu hæfileikunum

„Þeir bara týndu hæfileikunum. Þetta er rosalegt. Umræðan fyrir þennan leik, strákar, var bara þannig að Tindastóll myndi bara vinna þennan leik mjög sannfærandi,“ sagði Stefán.

Hann spurði sérfræðing sinn, Teit Örlygsson, um það hvort að þetta hafi verið vanmat.

Allt liðið sleppti því að mæta

„Ég held þetta, af því þetta hafi verið svona sitt lítið af hvoru. Maður spilaði svona marga leiki þar sem einhverjir leikmenn mættu ekki til leiks. Leikur sem átti að vinnast auðveldlega varð erfiður og jafnvel tapleikur,“ sagði Teitur.

„Svo sérðu ekkert oft allt liðið bara sleppa því að mæta eins og Tindastólsliðið í gær og ég held að þeir hafi fundið það mjög fljótlega,“ sagði Teitur.

„Ég sá viðtalið við Arnar eftir leikinn og Arnar var löngu búinn að jafna sig. Leikurinn var búinn að vera tapaður í klukkutíma þegar viðtalið var tekið við Arnar,“ sagði Teitur.

Teitur hefur ekki áhyggjur af Stólunum

„Hann sá alveg að þetta er bara einn af þessum dögum og svona gerist. Ég held þetta hafi engin áhrif á Tindastólsliðið og ég held þeir verði bara alveg flottir strax í næsta leik,“ sagði Teitur.

„Þetta gerist og segir kannski ungu leikmönnum hvað hugurinn skiptir miklu máli í íþróttum. Það skiptir akkúrat engu máli hvað þú ert góður í einhverju ef hugurinn fylgir ekki,“ sagði Teitur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×