Fótbolti

Karó­lína Lea með tvær stoð­sendingar í langþráðum sigri Inter

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir gaf tvær stoðsendingar í sigri Internazionale í dag.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir gaf tvær stoðsendingar í sigri Internazionale í dag. Getty/Antonino Lagana

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir bjó til mörkin og Cecilía Rán Rúnarsdóttir hélt markinu hreinu þegar Internazionale vann flottan útisigur í Rómarborg í Seríu A-deild kvenna í fótbolta í dag.

Inter vann 2-0 sigur á Lazio Campo Mirko Fersini-leikvanginum í Róm en bæði mörkin komu í seinni hálfleiknum.

Þetta var langþráður sigur hjá Internazionale sem hafði leikið fimm deildarleiki í röð án þess að vinna.

Belgíska landsliðskonan Tessa Wullaert skoraði bæði mörkin og þau komu bæði eftir stoðsendingar frá Karólínu Leu. Fyrra markið kom á 55. mínútu og það síðara á 61. mínútu eftir stungusendingu frá íslensku landsliðskonunni.

Þetta voru fyrstu tvö mörkin sem Karólína Lea kemur að í ítölsku deildinni á þessu tímabili en hún hefur skorað bæði í bikarnum og í Evrópukeppninni.

Cecilía Rán stóð sig líka vel í markinu og varði fjögur skot frá leikmönnum Lazio í leiknum. Þetta er þriðji deildarleikurinn þar sem hún heldur markinu hreinu á þessari leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×