Enski boltinn

Amorim við Hjör­var: Ég og liðið áttum þetta baul skilið

Sindri Sverrisson skrifar
Rúben Amorim svaraði spurningum Hjövars Hafliðasonar strax eftir leik á Old Trafford í kvöld.
Rúben Amorim svaraði spurningum Hjövars Hafliðasonar strax eftir leik á Old Trafford í kvöld. Sýn Sport

Hjörvar Hafliðason var á Old Trafford í kvöld og ræddi við Ruben Amorim, knattspyrnustjóra Manchester United, eftir 1-0 tapið gegn tíu leikmönnum Everton.

Idrissa Gana Gueye, miðjumaður Everton, fékk rautt spjald á 13. mínútu fyrir að slá liðsfélaga en það dugði United þó ekki til að fá nokkuð út úr leiknum.

Hjörvar spurði Amorim hvernig það hefði verið að heyra stuðningsmenn United í stúkunni baula í leikslok:

„Við áttum það skilið. Við áttum það skilið sem lið, ég á það skilið og leikmenn eiga það skilið. Við vorum manni fleiri í 70 mínútur og ættum að spila betur,“ sagði Amorim.

„Við hefðum átt að byrja leikinn af annarri ákefð, vitandi það að við vorum á góðu skriði og með tækifæri til að taka skref upp á við í deildinni, svo við verðskulduðum þetta [baulið] í lokin,“ bætti hann við en viðtalið má sjá hér að neðan.

Klippa: Amorim ræddi við Hjörvar

Hjörvar benti á að Amorim hefði í raun haft fáa kosti á varamannabekknum til að lífga upp á sóknarleik United þegar leið á leikinn. Mason Mount kom vissulega inn á í hálfleik en það var fátt um svör þegar Hjörvar spurði Amorim hvort hann hefði sjálfur getað gert eitthvað öðruvísi:

„Við reyndum okkar besta. Stundum gengur það og stundum ekki. Í dag gekk það ekki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×