Handbolti

Sturluð upp­lifun og skjálftinn farinn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Elín Klara Þorkelsdóttir var markahæst í liði Íslands í dag. Myndin er úr leik Íslands og Hollands á Evrópumótinu í fyrra.
Elín Klara Þorkelsdóttir var markahæst í liði Íslands í dag. Myndin er úr leik Íslands og Hollands á Evrópumótinu í fyrra. Vísir/Getty

„Auðvitað er svekkjandi að tapa en mér fannst frábær orka í liðinu. Þó við höfum ekki átt fullkomin leik stóðum við vel í þeim,“ segir Elín Klara Þorkelsdóttir, sem var markahæst Íslands í sjö marka tapi fyrir Þýskalandi í fyrsta leik liðsins á HM.

„Þetta er ótrúlega gott lið með atvinnumenn í hverri stöðu. Þetta var ágætis byrjun á mótinu,“ segir Elín Klara í samtali við Ágúst Orra Arnarson í Stuttgart í Þýskalandi eftir leik.

Klippa: Sturluð upplifun og skjálftinn farinn

Íslenska liðið átti góða kafla og hafði tækifæri til að vinna sig betur inn í leikinn um miðjan síðari hálfleik þegar skjálfti var í heimakonum. Niðurstaðan hins vegar sanngjörn þar sem hraðaupphlaup heimakvenna reyndust íslenska liðinu erfið.

„Mér fannst við sérstaklega sóknarlega ná að opna þær mikið sem er ótrúlega jákvætt. Sömuleiðis varnarlega, ef við komumst heim og stillum okkur af náum við nokkrum góðum vörnum. En við vorum í svolitlu basli með að hlaupa heim og fengum hraðaupphlaup í bakið sem er erfitt gegn svona liði,“ segir Elín sem naut sín vel fyrir fullri höll í Stuttgart.

„Mér leið persónulega vel. Það er búin að vera ótrúlega mikil spenna alla vikuna. Það er spennufall að þetta sé búið, þessi fyrsti leikur. Ég hef aldrei spilað svona stóran leik áður og þetta var alveg sturluð upplifun,“ segir Elín Klara sem vonast þá til að skjálftinn sé úr íslenska liðinu fyrir leik við Serba á föstudaginn kemur.

„Það var gott að byrja þetta svona, við vitum hvað við getum og mætum spenntar í næsta leik,“ segir Elín Klara.

Viðtalið má sjá í spilaranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×