Innlent

Tíu milljarða fjár­festing í Helgu­víkur­höfn vegna NATO

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá undirrituninni í morgun.
Frá undirrituninni í morgun. Vísir/SmáriJökull

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra, Kjartan Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ og Halldór K. Hermannsson, hafnarstjóri Reykjaneshafnar, undirrituðuviljayfirlýsingu um fyrirhugaða uppbyggingu mannvirkja í Helguvíkurhöfn á tíunda tímanum í morgun.

Um er að ræða stækkun á olíubirgðastöð Atlantshafsbandalagsins í Helguvík, sem felur í sér byggingu nýs viðlegukants sem og birgðageymslu fyrir 25 þúsund rúmmetra af skipaeldsneyti. Framkvæmdirnar verða fjármagnaðar af Atlantshafsbandalaginu, en áætlað er að fjárfestingin geti numið allt að tíu milljörðum króna.

„Einmitt með svona framtaki sýnum við enn og ný að Ísland er verðugt bandalagsríki, en framkvæmdirnar í Helguvík koma til með að efla enn frekar öflugt eftirlit skipaflota Atlantshafsbandalagsins á hafsvæðinu í kringum Ísland og norðurslóðum,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra í tilkynningu. 

„Það er viðvarandi skortur á skipaeldsneyti á Norður-Atlantshafi og þessi nýja aðstaða kemur til með að gjörbreyta þeirri stöðu til hins betra, okkur og öðrum aðildarríkjum til heilla.“

Nú stendur yfir undirbúningsvinna og hönnun umræddra mannvirkja í Helguvík sem jafnframt geta nýst í borgaralegum tilgangi. Stefnt er að því framkvæmdir hefjist síðla árs 2026 og þeim verði lokið árið 2028.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×