Handbolti

Viktor gat ekki spilað í Meistara­deildinni í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson missti af leik í Meistaradeild Evrópu í kvöld.
Viktor Gísli Hallgrímsson missti af leik í Meistaradeild Evrópu í kvöld. EPA-EFE/Szymon Labinski

Íslenski landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson missti af leik Barcelona í Meistaradeildinni í handbolta í kvöld. Janus Daði Smárason var hins vegar klár í slaginn og fagnaði sigri.

Barcelona vann þá þrettán marka útisigur á danska félaginu GOG, 41-28, eftir að hafa verið sjö mörkum yfir í hálfleik, 21-14.

Janus Daði Smárason er aftur á móti kominn af stað með PICK Szeged eftir langa fjarveru vegna meiðsla. Góðar fréttir fyrir ungverska liðið sem og íslenska landsliðið.

Viktor Gísli gat ekki spilað þennan leik hjá Barcelona í kvöld vegna óþæginda í mjöðm eins og kemur fram á miðlum Barcelona.

Filip Saric, 21 árs Spánverji, kom inn í hópinn í stað íslenska markvarðarins.

Aðalmarkvörður liðsins er Daninn Emil Nielsen sem varði sextán skot í leiknum í kvöld. Saric varði tvo bolta en reyndi við aðeins fimm bolta.

Eftir þennan sigur hefur Barcelona unnið átta af níu leikjum sínum í Meistaradeildinni í vetur.

Janus Daði var með tvö mörk í sex marka sigri PICK Szeged á heimavelli á móti HC Zagreb, 32-26. Staðan var 16-16 í hálfleik en Janus og félagar enduðu leikinn mjög vel.

Szeged er í fjórða sæti í sinum riðli með fimm sigra í níu leikjum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×