Enski boltinn

Arsenal að fá Arnar og Bjarka þeirra í Ekvador

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, og samstarfsmenn hans eru líkar að horfa til framtíðar þegar kemur að leikmannamálum.
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, og samstarfsmenn hans eru líkar að horfa til framtíðar þegar kemur að leikmannamálum. Getty/ Stuart MacFarlane

Arsenal hefur náð munnlegu samkomulagi um að kaupa ekvadorsku tvíburana Edwin og Holger Quintero frá Independiente Del Valle en samningurinn mun ganga í gegn þegar þeir verða átján ára í ágúst 2027.

Strákarnir eru sextán ára gamlir og eru staddir í London í þessari viku þar sem búist er við að þeir gangi frá formsatriðum, þar á meðal undirritun samninga, áður en formleg tilkynning verður gefin út síðar. 

Kaupverðið er enn óljóst en þessi félagaskipti eru liður í stefnu Arsenal um að tryggja sér bestu hæfileikamenn næstu kynslóðar. Í október var staðfest að annar sextán ára leikmaður, Victor Ozhianvuna, muni ganga til liðs við Arsenal frá Shamrock Rovers í janúar 2027 þegar hann verður átján ára.

Independiente, lið í efstu deild Ekvador, er talið vera gróðrarstía ekvadorskra hæfileikamanna og hefur alið af sér leikmenn á borð við Moisés Caicedo hjá Chelsea og Piero Hincapié, sem gekk til liðs við Arsenal frá Bayer Leverkusen í september á lánssamningi út tímabilið með kauprétti.

Chelsea hefur einnig gert samninga um kaup á unglingunum Kendry Páez og Deinner Ordonez frá Independiente, en Arsenal hafði betur í samkeppni við fjölda stórliða víðs vegar um Evrópu um að tryggja sér Quintero-tvíburana.

Heimildir herma við ESPN að Arsenal hafi fylgst með þeim í vel rúmt ár. Edwin Quintero er hraður hægri kantmaður sem sagður er minna á ungan Neymar, en Holger er talinn vera sóknarsinnaður miðjumaður.

Samningurinn er talinn vera mikið afrek fyrir njósnateymi unglingaakademíu félagsins og heimildir segja að skýr leið að aðalliðinu, sem sést á framförum leikmanna eins og Myles Lewis-Skelly, Ethan Nwaneri og nú síðast Max Dowman, hafi verið lykilatriði.

Dowman, sem verður sextán ára í desember, skrifaði undir námsstyrkssamning við félagið í október og hefur þegar leikið sína fyrstu leiki bæði í ensku úrvalsdeildinni og Meistaradeildinni á þessu tímabili.

Þegar hann kom inn á sem varamaður gegn Slavia Prag í síðasta mánuði varð hann yngsti leikmaðurinn til að spila í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×