Handbolti

Al­dís Ásta ó­létt og flytur heim til Ís­lands

Sindri Sverrisson skrifar
Aldís Ásta Heimisdóttir flytur heim til Íslands sem sænskur meistari.
Aldís Ásta Heimisdóttir flytur heim til Íslands sem sænskur meistari. Skara HF

Handboltakonan Aldís Ásta Heimisdóttir, sem verið hefur lykilmaður í sænska meistaraliðinu Skara, hefur ákveðið að flytja heim til Íslands þar sem hún á von á barni í vor.

Aldís Ásta átti ríkan þátt í því að Skara varð deildarmeistari og svo Svíþjóðarmeistari á síðustu leiktíð og hún segir það ekki auðvelda ákvörðun að yfirgefa félagið.

Í úrslitakeppninni síðasta vor skrifaði hún undir framlengingu til eins árs við Skara eftir að hafa komið til félagsins árið 2022, frá KA/Þór þar sem hún var einnig algjör lykilmaður.

„Ég mun sakna Skara mjög mikið og ég er svo þakklát fyrir tímann sem ég fékk þar og allt fólkið sem ég hitti og skapaði minningar með. Besta minningin mín er klárlega sænski meistaratitillinn á síðasta tímabili. Það var sérstök stund sem ég mun aldrei gleyma,“ sagði Aldís Ásta á heimasíðu Skara.

„Svo mun ég sakna þess að koma á æfingar, hitta stelpurnar og þjálfarana, hafa gaman með þeim og verða betri með hverri æfingu. Svo mun ég virkilega sakna áhorfendanna í Skara, þeir eru sérstakir og að hlaupa inn á völlinn fyrir framan fullan sal var uppáhalds augnablikið mitt,“ sagði Aldís Ásta sem tekur fram að hún sé alls ekki hætt í handbolta og eigi góðar fyrirmyndir.

„Mig langar virkilega að halda áfram að spila handbolta og markmið mitt núna er að koma sterkari til baka. Melanie, Sara, Ewe og Berra eru þær sem ég hef litið mikið upp til og þær hafa kennt mér mikið á handboltavellinum. Þær hafa allar komið til baka eftir meðgöngu og ég er hrifin af þeim og ég mun fá ráð frá þeim um hvernig þær komu til baka eftir meðgöngu,“ sagði Aldís Ásta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×