Enski boltinn

Segir við­brögð Salah eðlileg: „Ekki sá eini sem var ó­á­nægður“

Sindri Sverrisson skrifar
Arne Slot tók stóra ákvörðun varðandi Mohamed Slot um helgina en hvað gerir hann á morgun?
Arne Slot tók stóra ákvörðun varðandi Mohamed Slot um helgina en hvað gerir hann á morgun? Getty/Robbie Jay Barratt

Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, segir Mohamed Salah hafa tekið því af mikilli fagmennsku síðustu tvo daga að hafa verið settur á varamannabekkinn á sunnudaginn. Næsti leikur liðsins er annað kvöld.

Salah kom ekkert við sögu í 2-0 sigri Liverpool gegn West Ham. Liverpool hafði áður tapað þremur leikjum í röð, gegn Manchester City, Nottingham Forest og PSV, og fengið á sig tíu mörk í þeim.

Liðið er núna níu stigum á eftir toppliði Arsenal, eftir 13 umferðir, og á fyrir höndum leik við Sunderland á morgun. Sunderland er stigi á undan Liverpool, í 6. sæti.

Mikið hefur verið rætt og ritað um fjarveru Salah á sunnudaginn en hann hafði byrjað alla deildarleiki Liverpool frá því í apríl 2024, eða áður en Slot tók við liðinu. Slot viðurkennir að Salah hafi verið óhress með ákvörðun Hollendingsins.

Salah agaður fagmaður

„Þetta eru eðlileg viðbrögð frá leikmanni sem er nógu góður til að spila fyrir okkur [að vera vonsvikinn yfir því að spila ekki].

Hann hefur verið svo framúrskarandi fyrir þetta félag í svo mörg ár og mun verða það í framtíðinni. Auðvitað er leikmaður ekki ánægður ef hann spilar ekki. Hann var ekki sá eini sem var óánægður með að byrja ekki. Það er eðlilegt.

Hegðun hans var eins og maður myndi búast við af þeim fagmanni sem hann er. Mo er svo agaður og veit hvað hann þarf að gera til að halda sér í formi,“ sagði Slot á blaðamannafundinum í dag.

Hann staðfesti jafnframt að Salah færi frá Liverpool 15. desember vegna Afríkumótsins og mögulegt er að Salah missi af leikjum fram til 18. janúar, þegar úrslitaleikur mótsins fer fram. Ef Egyptar komast í 8-liða úrslit er ljóst að Salah missir af stórleiknum við Arsenal 8. janúar.

Bradley og Frimpong með eftir meiðsli

Þá greindi Slot frá því að varnarmennirnir Conor Bradley og Jeremie Frimpong væru að snúa aftur eftir meiðsli. „Conor kom á æfingu í gær í fyrsta sinn. Hann er ekki enn 100% svo við verðum að stýra þessu aðeins og ekki fara of hratt af stað,“ sagði Slot.

Þá sagði hann að Alexander Isak hefði fundið fyrir krampa í leiknum á sunnudaginn og að ljóst væri að Isak, Florian Wirtz og Joe Gomez gætu ekki spilað þrjá 90 mínútna leiki á einni viku. Staðan yrði þó metin varðandi þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×