Enski boltinn

Hand­tekinn á flug­velli grunaður um nauðgun

Sindri Sverrisson skrifar
Hinn grunaði lék í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á síðasta áratug.
Hinn grunaði lék í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á síðasta áratug. Getty/Nathan Stirk

Fótboltamaður sem lék með enska landsliðinu á öðrum áratug þessarar aldar, sem og í ensku úrvalsdeildinni, hefur verið handtekinn grunaður um tilraun til nauðgunar.

Enskir miðlar á borð við The Times og The Telegraph fjalla um þetta í morgun en greint var frá málinu fyrst í götublaðinu The Sun í gærkvöld.

Fótboltamaðurinn var handtekinn í vegabréfaeftirlitinu á Stansted flugvellinum en samkvæmt lögreglu hefur hann verið látinn laus gegn tryggingu á meðan að frekari rannsókn fer fram.

The Sun segir að svo virðist sem að upplýsingar hafi verið í kerfinu um að maðurinn væri eftirlýstur af lögreglu, svo að landamæraverðir stöðvuðu hann áður en hann hélt upp í flugvél á sunnudagskvöld. Blaðið segir að um sé að ræða ásökun um tilraun til nauðgunar fyrir þónokkru síðan, sem fyrrverandi maki mannsins tilkynnti um.

Blaðið segir að ekki sé hægt að nafngreina manninn að svo stöddu, af lagalegum ástæðum, en að fólk á flugvellinum hafi fylgst undrandi með handtökunni í ljósi þess að maðurinn hafi verið viðstaddur á opinberum viðburðum nýverið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×