Innlent

Mætti til Ís­lands með tvö kíló af kókaíni í bak­poka

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Dæmi um fíkniefni sem lögregla og tollgæslan hafa lagt hald á undanfarin ár.
Dæmi um fíkniefni sem lögregla og tollgæslan hafa lagt hald á undanfarin ár. Vísir/Vilhelm

Erlendur karlmaður með engin tengsl við landið hefur verið dæmdur í 26 mánaða fangelsi fyrir tilraun til að flytja inn tæplega 1,9 kíló af kókaíni í september síðastliðnum. Talið var ljóst að maðurinn væri ekki skipuleggjandi innflutningsins.

Um enn eitt málið er að ræða á þessu ári þar sem burðardýr er gripið með kókaín við komuna til landsins á Keflavíkurflugvelli. Eins og fram hefur komið hefur met verið slegið hvað varðar haldlagningu á fíkniefnum í ár.

Karlmaðurinn sem um ræðir heitir Denis Astfiev og kom til landsins með flugi þann 18. september. Tæplega 1,9 kíló af kókaíni fundust falin í bakpoka hans en styrkleiki efnisins var á milli 83 til 85 prósent.

Tveimur vikum síðar var annar karlmaður tekinn með kókaín í bakpoka sínum. Sá fékk fjórtán mánaða dóm en hann var með helmingi minna magn en Astfiev.

Astfiev játaði sök samkvæmt ákæru og fékk 26 mánaða dóm. Gæsluvarðhald frá því í september dregst frá dómnum. Þá var kókaínið gert upptækt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×