Fótbolti

„Ég er 43 ára og fyrsta manneskjan sem ég hringi í á morgnana er mamma“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gemma Grainger er þjálfari norska kvennalandsliðsins og leggur ofurkapp að vera með foreldra leikmanna sinna með í pakkanum.
Gemma Grainger er þjálfari norska kvennalandsliðsins og leggur ofurkapp að vera með foreldra leikmanna sinna með í pakkanum. Getty/James Gill

Gemma Grainger er að byrja vel sem þjálfari norska kvennalandsliðsins í fótbolta og stýrði norska liðinu til sigurs á Brasilíu í síðustu viku. Noregur hafði ekki unnið Brasilíu í kvennalandsleik síðan 1996.

Landsliðsstjörnurnar hrósa henni í viðtölum og norskum blaðamönnum þykir hún fara öðruvísi leiðir sem leiðtogi landsliðsins.

Það sem vekur mesta athygli er hversu mikla áherslu Grainger leggur á að hafa foreldra leikmannanna með.

„Í hvert einasta skipti sem ég fæ tækifæri til að bjóða foreldrum leikmannanna á æfingasamkomu, þá viljum við forgangsraða því. Við eyðum miklum tíma saman,“ segir Gemma Grainger sem hefur verið landsliðsþjálfari Noregs í rúm tvö ár. Norska ríkisútvarpið fjallar sérstaklega um þennan þjálfarastíl.

Stöðugasta fólkið í lífi þeirra

„Þau eru stöðugasta fólkið í lífi þeirra. Fyrir mér skiptir öllu máli að tryggja að leikmennirnir hafi þetta fólk í kringum sig. Það hjálpar mér líka að kynnast leikmönnunum betur,“ hélt hún áfram.

Náið samband hennar við móður sína endurspeglast í leiðtogastílnum sem hún beitir og það hafa landsliðsleikmennirnir fengið að finna fyrir.

„Ég er 43 ára núna og fyrsta manneskjan sem ég hringi í á morgnana er mamma,“ sagði Grainger.

Bretinn sker sig nefnilega úr frá flestum þjálfurum með því að hafa foreldra meðvitaða með í landsliðsumhverfinu – jafnvel þótt hún stýri þrautreyndum atvinnumönnum.

Ingrid Syrstad Engen, sem er orðin ein af reyndari leikmönnum liðsins, fagnar nýja leiðtogastílnum.

Vill kynnast þeim sem við höfum í kringum okkur

„Það er jákvætt því maður finnur að hún hugsar um okkur og vill kynnast þeim sem við höfum í kringum okkur. Mér finnst að þá sýnir þú áhuga á okkur og sérð alla manneskjuna, ekki bara fótboltamanninn,“ segir Syrstad Engen.

Landsliðsfélagi hennar, Caroline Graham Hansen, er sammála því.

„Þetta gerir það að verkum að hún er opin fyrir því að ræða við foreldrana og ég myndi giska á að margir finni að þeir séu svolítið með þá og fái að segja sína skoðun við landsliðsþjálfarann. Ég held að mörgum finnist það skemmtilegt,“ sagði Barcelona-stjarnan.

„Ég held að hún sé mjög góð í að sía út hvað er foreldraspjall og hvað er hægt að nota,“ sagði Graham Hansen.

Fyrir landsliðsþjálfarann snýst þetta fyrst og fremst um afreksmenningu. Að safna saman nánustu aðilum er að hennar sögn einn af lyklunum að velgengni.

Vill skilja leikmennina sína

„Þegar fólk talar um hvað þurfi til að vinna, hugsar það oft að það sé taktíkin. En í raun er það heildarmyndin. Það er heildræn þróun fólks og að skilja leikmennina mína eins vel og mögulegt er,“ segir Grainger.

Gudrun Syrstad, móðir Ingrid Syrstad Engen, staðfestir að foreldrar hafi aldrei verið teknir með á þennan hátt undir stjórn fyrri landsliðsþjálfara.

„Ég held að það hafi verið mjög mikilvægt. Við kunnum virkilega að meta það,“ segir Syrstad.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×