Handbolti

Skýrsla Ágústs: Svart var það sannar­lega og sést vonandi aldrei aftur

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Landsliðsþjálfarinn átti erfitt með að horfa upp á tapið og aðdáendum Íslands líður eins.
Landsliðsþjálfarinn átti erfitt með að horfa upp á tapið og aðdáendum Íslands líður eins. Alex Gottschalk/DeFodi Images/DeFodi via Getty Images

Stelpurnar okkar steinlágu gegn Svartfjallalandi og kvöddu þar með möguleikann á átta liða úrslitum á HM, með versta hætti. 

Möguleikinn var nú þegar agnarsmár og raunar bjóst enginn við því að Ísland kæmist áfram, en það hefði verið gaman að halda spennunni á lofti aðeins lengur eða allavega kveðja hann ekki með svona slæmu tapi.

Verst var að sjá stemninguna og leikgleðina, sem hefur einkennt íslenska liðið hingað til á mótinu, algjörlega horfna á braut.

Liðið mætti illa stemmt til leiks og var ekki sjálfu sér líkt á neinum tímapunkti.

Vörnin stóð ágætlega í fyrri hálfleik og Alfa Brá Hagalín Oddsdóttir á hrós skilið fyrir sína innkomu. Hafdís Renötudóttir varði líka mjög vel í nokkur skipti og þannig hélst munurinn í aðeins þremur mörkum þegar flautað var til hálfleiks.

Sóknarmenn Íslands sýndu hins vegar sínar slökustu hliðar í kvöld og engan undraði þegar landsliðsþjálfarinn Arnar Pétursson ákvað, í leikhléi eftir aðeins átján mínútur, að skipta öllum sóknarmönnum Íslands út.

Elín Klara Þorkelsdóttir, Elín Rósa Magnúsdóttir, Thea Imani Sturludóttir og Katrín Tinna Jensdóttir settust á bekkinn og voru látnar dúsa þar fram að hálfleik.

Sandra Erlingsdóttir, Lovísa Thompson, Díana Dögg Magnúsdóttir og Elísa Elíasdóttir komu þá inn á og glæddu leikinn einhverju lífi en gleðin var hvergi sjáanleg þegar Ísland gekk inn í búningsherbergi í hálfleik.

Litlu betur gekk í seinni hálfleik og skeifurnar á andlitum stelpnanna okkar urðu bara stærri eftir því sem líða fór á leikinn. Það er allt annað en sést hefur á mótinu hingað til, þar sem baráttugleði og hátt orkustig hefur einkennt íslenska liðið.

Hornamennirnir Dana Björg Guðmunsdóttir og Þórey Anna Ásgeirsdóttir reyndu að halda gleðinni á lofti í fyrri hálfleik og voru bjartasta ljósið í annars algjörum svartnættisleik gegn Svartfjallalandi.

Íslenskir stuðningsmenn leyfðu sér að vona að endurkoma, eins og gegn Serbíu í síðustu viku, væri í kortunum en liðið var aldrei nálægt því og gaf þess í raun merki strax í upphafi seinni hálfleiks að svo yrði ekki. Alveg eins og í fyrri hálfleik. 

Stemningin í kringum íslenska liðið var aldrei sjáanleg og erfitt er að segja nákvæmlega hvers vegna það gerðist, en það var allavega ekki gaman að sjá.

Nú eru tveir leikir eftir af mótinu, gegn Spáni og Færeyjum, og þó Ísland hafi ekki upp á neitt að spila verður vonandi gaman að horfa á liðið aftur.

Leikir tapast og við því var búist, enginn svekkir sig á því að tapa gegn sterku liði Svartfjallalands, en svekkelsið er mikið að sjá svona stemningslausan og leiðinlegan leik. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×