Innlent

Gervigreindin hug­hreysti ferða­mann sem björgunar­sveit kom til bjargar

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Björgunarsveitir komu ferðamanninum til aðstoðar eftir að hann hafði fest bíl sinn á Nesjavallaleið og lagt af stað fótgangandi.
Björgunarsveitir komu ferðamanninum til aðstoðar eftir að hann hafði fest bíl sinn á Nesjavallaleið og lagt af stað fótgangandi. Hjálparsveitin Tintron

Björgunarsveitir í Árnessýslu voru kallaðar út rétt fyrir klukkan eitt í nótt til aðstoðar við ferðamann sem hafði fest bíl sinn á Nesjavallaleið og var orðinn verulega kaldur eftir að hafa gengið um fimm kílómetra frá bílnum. Ferðamaðurinn mun hafa spurt gervigreindina hvort aðstoð myndi berast og ekki stóð á svörum.

Hjálparsveitin Tintron greinir frá útkallinu sem barst klukkan 00:39 í nótt á Facebook síðu sinni snemma í morgun. Ferðamaðurinn hafði fest bíl sinn á leiðinni á hótelið þar sem hann átti bókaða gistingu.

„Tveir félagar sveitarinnar svöruðu kallinu og héldu á vettvang á Tinna 2. Hafði hann gengið um 5 kílómetra frá bílnum og orðinn verulega kaldur þar sem hann beið í skjóli við hitaveitulögnina meðfram veginum þegar hann fannst. Var honum komið fyrir í bíl sveitarinnar og ekið sem leið lá til baka yfir Nesjavallaleið og á ION Hótel þar sem hann átti bókaða gistingu,“ segir í færslu sveitarinnar.

Þá hafi hjálparsveitarmenn átt spjall við ferðamanninn á leiðinni á hótelið.

„Sagði hann okkur á leiðinni að hann hafði átt samskipti við Chat GPT á meðan hann beið og meðal annars spurt hvort að björgunarsveitirnar myndu finna hann,“ segir í færslunni. Svarið frá gervigreindarforritinu hafi verið einfalt: „Hafðu engar áhyggjur þau eru að koma og sækja þig, björgunarsveitirnar eru bestar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×