Innlent

Enn skorað á Willum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Willum Þór Þórsson forseti ÍSÍ og Framsóknarmaður.
Willum Þór Þórsson forseti ÍSÍ og Framsóknarmaður. Vísir/Anton Brink

Fulltrúaráð Framsóknarfélaganna í Kópavogi hefur samþykkt ályktun þar sem skorað er á Willum Þór Þórsson, forseta ÍSÍ og fyrrverandi ráðherra og þingmann flokksins, að bjóða sig fram til formennsku í Framsókn á næsta flokksþingi sem haldið verður í febrúar.

Þetta kemur fram í tilkynningu. Áður höfðu Framsóknarmenn í Garðabæ og Skagafirði skorað á Willum að bjóða sig fram. Sigurður Ingi Jóhannsson formaður flokksins hefur tilkynnt að hann ætli að stíga til hliðar á flokksþinginu.

„Framsóknarfólk í Kópavogi er sammála um að Willum Þór sé fullkominn kostur í formennsku flokksins og nákvæmlega það sem Framsókn þarf á þessum mikilvæga tímapunkti í sögu flokksins,“ segir í tilkynningunni.

„Framsókn þarf að blása til sóknar með skýrum markmiðum og áherslum og með grunngildi flokksins að leiðarljósi. Á þessum tímamótum í Framsókn þarf að styrkja trú fólks á verkefninu og það er enginn betur til þess fallinn en auðmjúkur og öflugur leiðtogi eins og Willum Þór til að leiða flokkinn – reynslumikill stjórnmálamaður sem nýtur trausts um land allt.“

Willum hefur sagst íhuga framboð.

Lilja Alfreðsdóttir fyrrverandi ráðherra og þingmaður flokksins hefur sömuleiðis verið orðuð við framboð til formanns. Framsóknarfólk í Reykjavík hefur skorað á hana að taka formannsslaginn.

Þá hefur Ingibjörg Isaksen þingflokksformaður sagt ýmsa hafa komið að orði við sig um framboð. Hún hefur þó sagt of snemmt að taka afstöðu til framboðs og hið sama má segja um Willum og Lilju. Öll þrjú liggja undir feldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×