Innlent

Guð­mundur Ingi kominn í veikinda­leyfi og á leið í hjarta­að­gerð

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Guðmundur Ingi Kristinsson er kominn í veikindaleyfi.
Guðmundur Ingi Kristinsson er kominn í veikindaleyfi. Vísir/Ívar Fannar

Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, er kominn í tímabundið veikindaleyfi. Hann mun gangast undir hjartaaðgerð snemma á næsta ári en varamaður hefur tekið sæti í hans stað á Alþingi.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

„Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, fer í tímabundið veikindaleyfi frá og með deginum í dag. Ráðherra hefur undanfarið farið í læknisrannsóknir á Landspítalanum og þarf að gangast undir hjartaaðgerð snemma á næsta ári.

Gert er ráð fyrir að aðgerðin tryggi ráðherra fullan bata til lengri tíma og að hann snúi aftur til starfa í kjölfarið. Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra mun tímabundið gegna starfi mennta- og barnamálaráðherra,“ segir í tilkynningunni.

Líkt og Vísir greindi frá í morgun tók varamaður sæti fyrir Guðmund Inga á Alþingi í morgun. Þá lá ekki fyrir hve lengi ráðherrann yrði fjarverandi. Til stóð að hann yrði til svara í óundirbúnum fyrirspurnartíma á fimmtudaginn en nú er útlit fyrir að svo verður ekki í ljósi veikinda.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×