Viðskipti innlent

Halli hins opin­bera minnkaði um 39 milljarða

Árni Sæberg skrifar
Hagstofa Íslands hefur tekið saman tekjuafkomu ríkisins á þriðja ársfjórðungi.
Hagstofa Íslands hefur tekið saman tekjuafkomu ríkisins á þriðja ársfjórðungi. Vísir/Hanna

Áætlað er að tekjuafkoma hins opinbera hafi verið neikvæð um 14,8 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi 2025 eða sem nemur 1,2 prósent af vergri landsframleiðslu ársfjórðungsins. Til samanburðar nam hallinn á þriðja ársfjórðungi 2024 53,80 milljörðum eða 4,5 prósent af vergri landsframleiðslu þess ársfjórðungs. Útgjöld vegna launakostnaðar og kaupa á vöru og þjónustu héldu áfram að aukast á verðlagi hvers árs. Töluvert dró úr öðrum tilfærslum, sem voru óvenjuháar á árinu 2024 vegna jarðhræringa og eldgosa við Grindavík.

Í tilkynningu þess efnis á vef Hagstofunnar segir að í heild sé áætlað að tekjur hins opinbera hafi aukist um 7,5 prósent á verðlagi hvers árs samanborið við þriðja ársfjórðung 2024. Tekjur af sköttum og tryggingagjaldi hafi aukist um 8,4 prósent.

Áætlað sé að heildarútgjöld hafi dregist saman um 0,4 prósent á þriðja ársfjórðungi 2025 miðað við sama tímabil 2024. Útgjöld vegna launakostnaðar og kaupa á vöru og þjónustu hafi haldið áfram að aukast á verðlagi hvers árs. 

Töluvert hafi dregið úr öðrum tilfærslum, sem hafi verið óvenjuháar á árinu 2024 vegna jarðhræringa og eldgosa við Grindavík. Bráðabirgðagögn bendi til þess að einnig hafi dregið úr greiddum vaxtagjöldum og fjárfestingu hins opinbera. Búast megi við að niðurstöður taki breytingum þegar uppgjör liggur fyrir.

Þá segir að vert sé að hafa í huga að afmörkun hins opinbera í þjóðhagsreikningum og í talnaefni um fjármál hins opinbera miðist við evrópska þjóðhagsreikningastaðalinn, ESA2010. 

Með hinu opinbera teljist meðal annars lánasjóðir ríkissjóðs, sem hafi veruleg áhrif á vaxtatekjur og gjöld þess. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×