Enski boltinn

Isak tæpur og Gakpo frá

Valur Páll Eiríksson skrifar
Alexander Isak komst á blað í ensku úrvalsdeildinni með Púllurum gegn West Ham á dögunum. Óvíst er hvort hann leiki með liðinu gegn Brighton á morgun.
Alexander Isak komst á blað í ensku úrvalsdeildinni með Púllurum gegn West Ham á dögunum. Óvíst er hvort hann leiki með liðinu gegn Brighton á morgun. Vísir/Getty

Sænski framherjinn Alexander Isak er tæpur fyrir leik Liverpool við Brighton á Anfield í ensku úrvalsdeildinni á morgun. Cody Gakpo er frá næstu vikur.

Arne Slot greindi frá meiðslastöðunni á blaðamannafundi fyrir leik morgundagsins í dag. Mestar vangaveltur eru um þátttöku Egyptans Mohamed Salah í þessum síðasta leik Liverpool áður en hann heldur á Afríkumótið.

Slot gæti hreinlega neyðst vegna meiðslastöðu liðsins til að nýta krafta Salah, en líkt og greint var frá í morgun mun hollenski þjálfarinn funda með Salah um framhaldið í dag.

Isak meiddist í leik Liverpool við Inter í vikunni en um smávægileg meiðsli er að ræða. Það er þrátt fyrir það óvíst með þátttöku hans á morgun.

Þá eru þeir Cody Gakpo og Wataru Endo frá og munu missa af næstu vikum samkvæmt Slot. Gakpo glímir við vöðvameiðsl en Endo er meiddur á ökkla.

Conor Bradley mun ekki spila leikinn við Brighton vegna leikbanns en þá eru þeir Giovanni Leoni og Jeremie Frimpong áfram frá. Leoni spilar ekki meira á leiktíðinni en vonast er til að Frimpong spili fyrir árslok.

Federico Chiesa getur tekið þátt á morgun eftir að hafa glímt við veikindi í vikunni, að sögn Slot.

Leikur Liverpool og Brighton er klukkan 15:00 á morgun og verður sýndur beint á Sýn Sport 2. Honum verður einnig fylgt eftir í Doc Zone á Sýn Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×