Formúla 1

Valin kona ársins í akstursíþróttum á sau­tján ára af­mælis­daginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Danski ökuþórinn Alba Hurup Larsen ætlar sér að skrifa söguna fyrir konur í formúlu 1.
Danski ökuþórinn Alba Hurup Larsen ætlar sér að skrifa söguna fyrir konur í formúlu 1. @f1academy

Danski ökuþórinn Alba Hurup Larsen er á hraðri uppleið í formúluheiminum en hún var fyrsti viðtakandi nýrra verðlauna sem viðurkenna frumherjastarf hennar í baráttu fyrir uppkomu fleiri kvenna í formúlunni.

Á fimmtudaginn staðfesti Ferrari að Alba muni keppa á bíl Ítalanna í F1 Academy á næsta ári.

Daginn eftir, á sautján ára afmælisdegi sínum, var hún komin til höfuðborgar Úsbekistan á árlega verðlaunahátíð Alþjóðaakstursíþróttasambandsins, FIA.

Þar varð hún fyrsti viðtakandi nýstofnaðra verðlauna FIA, „FIA Women in Motorsports“ eða „Kona ársins í akstursíþróttum“.

Verðlaunin eru veitt fyrir „framúrskarandi framlag til að byggja upp fjölbreyttara og aðgengilegra vistkerfi fyrir alla í akstursíþróttum“.

Þessi verðlaun eiga að fara til „hvetjandi fyrirmynd“ sem opnar tækifæri fyrir stelpur og konur á öllum sviðum akstursíþrótta.

Alba Larsen keppti árið 2025 sitt fyrsta tímabil í F1 Academy auk nokkurra valinna F4-keppna í Bretlandi, Portúgal og á Spáni.

Verðlaunin fær hún fyrir verkefni sitt sem kallast Girls International Racing Lab (G.I.R.L.).

Það er tengslanet með það að markmiði að styrkja konur og sýna þeim leiðina inn í akstursíþróttir.

Með því að skipuleggja keppnir, fundi og leiðsagnarstundir með Ölbu Hurup Larsen og öðrum fyrirmyndum hefur framtakið náð til yfir fjögur hundruð stelpna og ungra kvenna í Danmörku og stefnir að því að ná til fimmtán þúsund stelpna út um allan heim.

„Ég stofnaði G.I.R.L. þegar ég var 15 ára til að gera öðrum stelpum auðveldara fyrir að spreyta sig í akstursíþróttum og til að styrkja andlegan styrk unglingsstúlkna alls staðar. Viðbrögðin og stuðningurinn hafa verið ótrúleg,“ sagði Alba Hurup Larsen

„Verðlaunin eru eins og æðsta viðurkenningin á þessu markmiði og gefa mér meiri trú en nokkru sinni fyrr á að við getum laðað að okkur fleiri samstarfsaðila til að breyta þessari framtíðarsýn í veruleika og ná enn lengra,“ sagði Alba.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×