Fótbolti

„Ég bið Lionel Messi inni­lega af­sökunar“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aðdáendur Lionels Messi voru búnir að borga vænar upphæðir fyrir miða og voru ekki sáttir við að fá ekki að sjá hann á leikvanginum i Kolkata. Þeir létu reiði sína bitna á leikvanginum sjálfum.
Aðdáendur Lionels Messi voru búnir að borga vænar upphæðir fyrir miða og voru ekki sáttir við að fá ekki að sjá hann á leikvanginum i Kolkata. Þeir létu reiði sína bitna á leikvanginum sjálfum. EPA/PIYAL ADHIKARY

Lionel Messi er mættur til Indlands en ferðin byrjaði ekki vel. Stutt stopp á leikvangi, sem áhorfendur höfðu borgað stórar upphæðir fyrir miða sína, fór mjög illa í marga og þeir hinir sömu létu reiði sína bitna á leikvanginum.

Ferð Lionels Messi um Indland hófst á leiðindum þegar aðdáendur rifu upp sæti og köstuðu þeim inn á völlinn eftir stutta heimsókn argentínska framherjans og leikmanns Inter Miami á Salt Lake-leikvanginn í Kolkata.

Messi er staddur á Indlandi í ferðalagi þar sem hann mun meðal annars sækja tónleika, fótboltaæfingar fyrir ungt fólk, padel-mót og koma af stað góðgerðarverkefnum á viðburðum í Kolkata, Hyderabad, Mumbai og Delhi.

Messi mun einnig vígja tuttugu metra styttu af sér sjálfum standandi með heimsbikarinn.

Samkvæmt fréttum í indverskum fjölmiðlum gekk heimsmeistarinn frá 2022 um völlinn á leikvanginum og veifaði til aðdáenda, en var umkringdur stórum hópi fólks og fór aðeins tuttugu mínútum eftir komu.

Myndband frá ANI-fréttastöðinni sýndi aðdáendur kasta upprifnum leikvangssætum og öðrum hlutum inn á völlinn og hlaupabrautina á staðnum, þar sem nokkrir sem höfðu klifrað yfir girðingu í kringum leikvöllinn köstuðu hlutum.

„Það voru bara leiðtogar og leikarar sem umkringdu Messi. Af hverju var okkur þá boðið?“ sagði aðdáandi á leikvanginum við ANI. „Við borguðum 12.000 rúpíur [100 pund] fyrir miðann en gátum ekki einu sinni séð andlitið á honum.“

Aðalráðherra Vestur-Bengal-fylkis, Mamata Banerjee, bað Messi afsökunar og fyrirskipaði rannsókn á atvikinu. „Ég er djúpt snortin og hneyksluð á þeirri óstjórn sem varð vitni að í dag á Salt Lake-leikvanginum,“ skrifaði Banerjee, sem var á leið á viðburðinn þegar óeiðirnar brutust út, á X.

„Ég bið Lionel Messi innilega afsökunar, sem og alla íþróttaunnendur og aðdáendur hans, á þessu óheppilega atviki. Ég er að skipa rannsóknarnefnd en nefndin mun framkvæma ítarlega rannsókn á atvikinu, finna ábyrgðaraðila og leggja til aðgerðir til að koma í veg fyrir slíka atburði í framtíðinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×