Skoðun

Ég á­kalla!

Eyjólfur Þorkelsson skrifar

Kæri forsætisráðherra!

Leyfist mér að endurgjalda vinarþel sem þú hefur áður sýnt mér? Því vinur er sá sem til vamms segir. Orðspor þitt, ímynd og trúverðugleiki, sem hingað til hefur verið hátt metið er nú í hættu. Hættunni sem óheilindi Eyjólfs Ármannssonar hafa leitt ríkisstjórnina út í.

Ég reyndi af veikum mætti að vara Innviðaráðherra við í opnu bréfi 1. september síðastliðinn, en hann þverskallast við. Hann lýgur um gögn, fabrikerar forsendur, fer á svig við lög og fyrirgerir trausti í samfélaginu. Mann af hans kaliberi setur ekki niður við svona vinnubrögð. En jafnaðarmenn setur niður við að bera blak af svona vinnubrögðum.

Því hvað eru jafnaðarmenn ef ekki þeir sem trúa á hag samfélagsins umfram hagsmuni þeirra sem verma valdastóla? Hvað eru jafnaðarmenn ef ekki þeir sem setja manngildi ofar auðgildi, ekki af því að þeir skilji ekki vægi frjáls markaðar og kapítalisma, heldur af því að þeir skilja meira?

Ég ákalla því!

- Ég ákalla jafnaðarmann að verja félagsauð og traust manna í milli, fremur en auka skautun.

- Ég ákalla jafnaðarmann að tryggja öryggi okkar, ekki bara Austfirðinga, heldur þjóðarinnar allrar.

- Ég ákalla jafnaðarmann að veita atfylgi óeigingjarnri og samtaka vinnu sveitarstjórnarfólks um forgangsröðun samgöngumannvirkja.

- Ég ákalla jafnaðarmann að hefja faglega stjórnsýslu upp yfir hégóma og fordild.

- Ég ákalla jafnaðarmann að virða markmið laga nr. 33/2008, sem ný forgangsröðun jarðganga fer á svig við.

- Ég ákalla jafnaðarmann að láta ekki kröfur um arðsemi jarðganga ráða á Austurlandi en hvergi annarstaðar á landinu.

- Ég ákalla jafnaðarmann að standa með Heilbrigðisþjónustu Austurlands.

- Ég ákalla jafnaðarmann að biðja ekki samfélag í nauðvörn að bíða eftir réttlætinu.

Kæra Kristrún. Ég kalla á þig. Það er mannlegt að gera mistök. Það er stórmannlegt að gera yfirbót. Forgangsröðum trausti, öryggi og fagmennsku. Förum undir Fjarðarheiði!

Höfundur er heimilislæknir, Þingmýlingur og (ennþá) meðlimur í Samfylkingunni.




Skoðun

Sjá meira


×