Sport

Dauða­slys í maraþonhlaupi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Maraþonhlauparinn Dezirée du Plessis er látin eftir að hafa orðið fyrir bíl i miðju maraþonhlaupi.
Maraþonhlauparinn Dezirée du Plessis er látin eftir að hafa orðið fyrir bíl i miðju maraþonhlaupi. @WandZFoundation

Maraþonhlauparinn Dezirée du Plessis er látin eftir að hafa orðið fyrir bíl í maraþonhlaupi.

Hin 45 ára gamla Du Plessis varð fyrir leigubíl í Soweto-maraþoninu í síðasta mánuði og lést af sárum sínum á sjúkrahúsi.

Du Plessis er tveggja barna móðir frá Pretoríu en slysið varð í hinu árlega hlaupi þann 29. nóvember síðastliðinn. Hún fór í bráðaaðgerð vegna blæðingar í heila.

Henni tókst þó ekki að ná sér og systir hennar, Marijke Miller, staðfesti við suðurafríska fjölmiðla að hún hefði látist af sárum sínum.

„Dezzi dró sinn síðasta andardrátt í morgun og lauk hlaupinu sínu. Hún barðist allt til enda en sofnaði svefninum langa,“ skrifaði Miller á Facebook.

Þar sem ástand Du Plessis var mjög alvarlegt var söfnun hafin og söfnuðust yfir 330 þúsund rand eða 2,5 milljónir króna til að standa straum af lækniskostnaði hennar.

Einnig hafði verið skipulagt skemmtiskokk við Run-A-Way Sport verslunina í Pretoríu á laugardag til að safna fé fyrir Du Plessis og þótt hún hafi látist degi áður fór hlaupið fram og var haldið til minningar um hana.

Ökumaður leigubílsins sem ók á Du Plessis, sem grunaður var um ölvunarakstur og að hafa hunsað lögreglumenn sem neituðu honum um aðgang að hlaupaleið Soweto-maraþonsins, var handtekinn fyrir glæfralegan og gáleysislegan akstur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×