Fótbolti

Sú besta í heimi komst ekki á blað hjá ís­lenska landsliðsþjálfaranum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Spænska knattspyrnukonan Aitana Bonmati var kosin besta knattspyrnukona heims í gær en komst ekki á topp þrjú lista Þorsteins Halldórssonar.
Spænska knattspyrnukonan Aitana Bonmati var kosin besta knattspyrnukona heims í gær en komst ekki á topp þrjú lista Þorsteins Halldórssonar. Getty/Alex Caparros/Javier Borrego

Spænska knattspyrnukonan Aitana Bonmatí var í gær kosin knattspyrnukona ársins hjá FIFA og hlaut þessi virtu verðlaun þriðja árið í röð. Hún hefur einnig unnið Gullhnöttinn þrjú ár í röð.

Það eru landsliðsþjálfari, landsliðsfyrirliði og blaðamaður frá hverri þjóð sem kjósa í verðlaunum Alþjóða knattspyrnusambandsins.

Fyrir Ísland kusu landsliðsþjálfarinn Þorsteinn Halldórsson, landsliðsfyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir og blaðamaðurinn Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson hjá fótbolti.net.

Sú besta í heimi komst ekki á blað hjá íslenska landsliðsþjálfaranum og var aðeins í þriðja sæti hjá fyrirliðanum. Guðmundur Aðalsteinn var aftur á móti með hana í fyrsta sætinu.

Þorsteinn og Glódís Perla voru sammála um það að enski landsliðsmiðvörðurinn Leah Williamson hafi verið besta knattspyrnukona heims árið 2025.

Þorsteinn var með enska framherjann Alessia Russo í öðru sæti og spænsku knattspyrnukonuna Mariona Caldentey í þriðja sæti. Glódís var með hina spænsku Alexia Putellas í öðru sæti og svo Bonmatí í þriðja sætinu.

Guðmundur var með þær ensku Alessiu Russo og Chloe Kelly í næstu sætum á eftir Bonmatí.

Elísabet Gunnarsdóttir, sem þjálfar belgíska landsliðið, var með Aitanu Bonmatí í efsta sæti hjá sér en í öðru sæti kom hin spænska Patri Guijarro og þriðja var síðan enski bakvörðurinn Lucy Bronze.

Orri valdi ekki Dembélé bestan og Heimir með Salah

Arnar Gunnlaugsson landsliðsþjálfari karla og blaðamaðurinn Víðir Sigurðsson voru báðir með Frakkann Ousmane Dembélé í fyrsta sæti en hann hlaut verðlaunin hjá körlunum. Arnar var síðan með miðjumanninn Vitinha í öðru sæti og Kylian Mbappé var síðan þriðji.

Víðir var með Lamine Yamal í öðru sæti og Mohamed Salah var síðan þriðji hjá honum.

Orri Steinn Óskarsson landsliðsfyrirliði var ekki með Dembélé í fyrsta sæti heldur Frakkann Kylian Mbappé. Dembélé var síðan annar hjá Orra en þriðji var Brasilíumaðurinn Raphinha hjá Barcelona.

Heimir Hallgrímsson, sem þjálfari írska landsliðsins, var hins vegar ekki með besta mann heims á blaði. Heimir setti Mohamed Salah í fyrsta sæti, Lamine Yamal var annar og í þriðja sætinu var síðan Nuno Mendes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×