Skoðun

Hefurðu heyrt söguna?

Ísak Hilmarsson skrifar

Hefurðu heyrt fyrstu söguna af þér? Söguna sem foreldrar þínir sögðu ömmu þinni og afa, vinum og ættingjum þínum á sínum tíma? Hefurðu heyrt söguna af því þegar þú komst í heiminn? Ertu fædd/ur á Landspítalanum eins og meirihluti Íslendinga? Eða ertu kannski fædd/ur í heimahúsi í Kópavogi? Á sjúkrahúsi úti á landi? Á fæðingarheimili? Í sjúkrabíl? Erlendis? Eða á sveitabæ? Jafnvel í eyju á Breiðafirði? Hverjir voru viðstaddir fæðinguna? Var pabbi þinn viðstaddur fæðinguna? Hvernig var aðdragandinn? Var þetta þaulskipulagt eða meira óvænt ánægja? Var þetta keisaraskurður eða fæðing um leggöng? Hvernig var meðgangan? Mæðraverndin? En fyrstu dagarnir? Hefurðu heyrt talað um sæluviku? Hvernig var fæðingarorlofinu háttað? Eða var kannski ekkert fæðingarorlof í boði á þeim tíma? Varstu fyrsta barn foreldra þinna? Síðasta barn þeirra eða miðjubarn eða mögulega fyrsta og síðasta? Hafði það áhrif á upplifun þeirra? Hvað fór í gegnum huga foreldra þinna á meðgöngunni? Hverjar voru væntingarnar, draumarnir og áhyggjurnar á þessum tímum? Vissu foreldrar þínir kynið á meðgöngunni? Hvernig gekk að ákveða nafnið á þér?

Veistu þetta kannski allt saman?

Ef þú hefur tök á að ræða fæðingarsöguna við foreldra þína þá mæli ég með því að þú gerir það. Það er efni í góða sögustund að rifja þessa hluti upp. Hvað er betra en að hella upp á gott kaffi eða te og ræða fyrstu stundir lífsins? Er til mikilvægari saga til að segja?

Áttu barn eða börn? Þá mæli ég með því að þú ræðir við maka þinn eða hitt foreldri barnsins um upplifanir ykkar af því að eignast barn. Það geta verið algjörlega ólíkar upplifanir af sömu atburðunum og aðstæðunum. Tilfinningarnar sem við upplifum eru líka gjörólíkar.

Ef þú átt börn þá mæli ég líka með því að þú segir þeim söguna af því þegar þau komu í heiminn. Ég hef sagt börnunum mínum söguna af því þegar þau mættu og það var falleg saga fyrir svefninn sem við höfðum öll gaman af.

Höfundur er þriggja barna faðir og annar tveggja höfunda bókarinnar Fæðingarsögur feðra.




Skoðun

Sjá meira


×