Innlent

Reglu­lega til­kynnt um þjófnað á vatni

Lovísa Arnardóttir skrifar
Silja Ingólfsdóttir segir að þegar slík mál koma upp séu þau alltaf kærð.
Silja Ingólfsdóttir segir að þegar slík mál koma upp séu þau alltaf kærð. Aðsend og Vísir/Anton Brink

Silja Ingólfsdóttir upplýsingafulltrúi Veitna segir það reglulega gerast að tengt sé fram hjá mæli og vatni stolið. Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var í dag tilkynnt um þjófnað á vatni frá Veitum á byggingarsvæði í Grafarvogi. Grétar Stefánsson, aðalvarðstjóri á lögreglustöð á Vínlandsleið, segir að á byggingarsvæðinu hafi verið að taka vatn fram hjá mæli. Um sé að ræða nýbyggingarsvæði.

„Það er ólöglegt og þegar við verðum vör við það þá er kært,“ segir Silja og að verklagið sé alveg skýrt hjá Veitum hvað þetta varðar. Hún segist ekki hafa upplýsingar um einstaka mál og því hafi hún ekki upplýsingar um magn vatns sem var stolið en yfirleitt komi slík mál upp þegar starfsmenn Veitna eru í eftirlitsferðum. Þeir sem eru staðnir að því að tengja fram hjá mæli fá yfirleitt tækifæri til að bæta úr en sé það ekki gert er kært.

Í tilkynningu lögreglu um verkefni Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í dag kom einnig fram að fjórir væru í fangageymslu og að 66 mál væru skráð frá klukkan fimm í morgun til 17 síðdegis. Tveir voru handteknir fyrir þjófnað í verslun í miðbæ og tilkynnt um þjófnað í verslun í 108 líka. Einnig var tilkynnt um þjófnað á vinnusvæði í Garðabæ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×