Enski boltinn

„Sýnum kvennaíþróttir af því að þær eru frá­bærar“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frábær árangur enska kvennalandsliðsins í fótbolta, sem hefur unnið EM tvisvar í röð, hefur hjálpað mikið til að auka sýnileika kvenna í íþróttum í Bretlandi.
Frábær árangur enska kvennalandsliðsins í fótbolta, sem hefur unnið EM tvisvar í röð, hefur hjálpað mikið til að auka sýnileika kvenna í íþróttum í Bretlandi. Getty/Harry Langer/

Breska ríkisútvarpið hefur stóraukið útsendingar frá kvennaíþróttum á síðustu árum og það er ánægjuleg ástæða fyrir því.

Aukin umfjöllun BBC Sport um íþróttir kvenna er nefnilega drifin áfram af eftirspurn áhorfenda, ekki siðferðislegri skyldu, að sögn Alex Kay-Jelski, framkvæmdastjóra breska ríkisútvarpsins.

Kay-Jelski hélt framsögu á SportsPro Media-ráðstefnunni í Madríd, og sagði þar að nálgun BBC endurspeglaði hraðan vöxt og almennar vinsældir íþrótta kvenna, sem byggjast á meira en áratug stefnumarkandi fjárfestingu.

„Við sýnum kvennaíþróttir af því að þær eru frábærar en ekki af því að það er okkar skylda,“ sagði Kay-Jelski og rökstuddi þetta enn frekar.

„Helmingur þjóðarinnar eru konur og gögnin okkar sýna að bæði karlar og konur hafa gaman af því að horfa á íþróttir kvenna,“ sagði Kay-Jelski „Við erum ekki að gera þetta af því að það er rétt í sjálfu sér – við erum að gera þetta af því að það er til staðar áhorfendahópur og sá hópur fer vaxandi.“

Íþróttaefni kvenna hjá BBC spannar nú stór alþjóðleg mót og innlenda umfjöllun allt keppnistímabilið, með útsendingum á besta tíma í línulegri dagskrá, miklum sýnileika á stafrænum miðlum og umtalsverðum markaðsstuðningi.

Sá vöxtur var undirstrikaður af framúrskarandi ári fyrir íþróttir kvenna árið 2025. Úrslitaleikur Evrópumótsins 2025 náði hámarki með 11,6 milljónum sjónvarpsáhorfenda, með 4,2 milljónum streyma til viðbótar, á meðan heimsmeistaramót kvenna í ruðningi náði til tólf milljóna í sjónvarpi og skilaði 56 milljónum áhorfsstunda á öllum miðlum.

Kay-Jelski sagði að árangur væri ekki aðeins mældur í aðaltölum, heldur í þátttöku. „Tíminn sem fólk ver er mælikvarðinn sem mér þykir vænst um. Ef áhorfendur eru virkir í sjónvarpi, á stafrænum miðlum og samfélagsmiðlum, og sú þátttaka eykst, þá erum við að vinna vinnuna okkar,“ sagði Kay-Jelski.

Hann viðurkenndi að vaxandi vinsældir gætu ýtt íþróttum kvenna yfir á áskriftarsjónvarp, en sagði að aðgengi BBC í opinni dagskrá væri enn öflugt tilboð. „Við færum milljónum manna íþróttir – það er gott fyrir styrktaraðila, þátttöku og miðasölu,“ sagði Kay-Jelski.

Sem stöð í almannaþjónustu, bætti hann við, verður BBC að halda jafnvægi milli stórra þjóðarviðburða og þess að styðja við íþróttir sem eru í vexti. „Okkur ber skylda til að segja frábærar sögur og þjóna ólíkum áhorfendahópum – en við getum ekki sagt já við öllu ef áhorfendahópurinn er ekki til staðar,“ sagði Kay-Jelski.

Alex Kay-Jelsk er framkvæmdastjóri breska ríkisútvarpsins.Getty/Yui Mok



Fleiri fréttir

Sjá meira


×